Nýsköpunarmiðstöð dregur sig út úr rekstri Fab Lab á Sauðárkróki

Aðkoma Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að Fab Lab smiðjunni á Sauðárkróki mun breytast næsta haust að því leyti að greiða ekki laun verkefnisstjóra eins og verið hefur frá stofnun smiðjunnar. Óvíst er hvað tekur við en vonast er til að ásættanleg lausn finnist í tíma. Karítas Sigurbjörg Björnsdóttir, verkefnisstjóri, segir í Feykisviðtali vikunnar að ákjósanlegasti kosturinn væri að samfélagið myndi sjá sér hag í því að hafa Fab Lab í þeirri mynd sem það er í dag og leggja í púkk þar sem margt smátt gerir eitt stórt.

Karítas sér fyrir sér að hægt væri að halda uppi starfsmanni og reka smiðjuna með sóma þannig að samfélagið njóti góðs af.  „Það sem er að breytast er að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur þá stefnu að þegar Fab Lab hefur komið sér vel fyrir í samfélaginu líkt og hér, þá draga þeir starfsmanninn til baka og gera í raun ráð fyrir því að samfélagið velji sjálft hvort það vilji hafa starfsmann og hvernig þeir vilja þá haga rekstrinum. Á meðan er stutt við hann með því að stuðla að endurmenntun og samtengingu við aðrar Fab Lab smiðjur og greiða þann farveg. En hvernig starfsmannahaldi er háttað er sett í hendur samfélagsins og við erum komin þangað núna,“ segir Karítas en samningurinn sem er í gildi rennur út þann 1. ágúst nk. og staðan sú að samfélagið þarf, í samræmi við Nýsköpunarmiðstöð, að taka ákvörðun um framhaldið. „Hvað viljum við gera og hvernig viljum við hafa þetta og hvað viljum við fá út úr því? Það hefur verið dálítið brösótt að fá alla aðila til að hittast og halda aðalfund til að taka ákvörðun um þessi mál en vonandi fer það að skýrast.“ 

Ertu bjartsýn á að það takist? 

„Já, ég er það. Ég er bjartsýn á að það komist á sátt og samkomulag um að hafa Fab Lab áfram í Skagafirði og best væri ef við gætum tengt það við allt Norðurland vestra.“ Þar sér Karítas m.a. tækifæri fyrir Þekkingarsetrið á Blönduósi sem vinnur í því að koma nýsköpun inn í textíliðnað en þar hefur verið mikil framþróun, m.a. með rafbúnaði og lífrænum textíl. „Að hafa samstarf þar á milli og ekki síður með Gestastofu sútarans, sem er með frábært hráefni. Þetta er ákveðin framtíðarsýn sem er mjög spennandi,“ segir Karítas.

Tengdar fréttir:
FAB LAB formlega opnað á morgun  
FabLab á Feyki-TV 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir