Nýtt hjól afhent og tekið í gagnið á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki - myndir
Íbúar Sauðárkróks hafa ef til vill séð til þeirra stallna, Ástu Karenar Jónsdóttur sjúkraliða á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki og Önnu Pálínu Þórðardóttur, hjóla um bæinn sl. laugardag þegar þær fóru í fyrsta hjólatúrinn á nýju hjóli sem þær hrintu af stað söfnun fyrir í upphafi árs. Ekki er um hefðbundið reiðhjól að ræða heldur rafknúið hjól sem tekur farþega.
Hjólið kom á Krókinn í síðustu viku en formleg afhending þess fór fram á dvalarheimilinu sl. mánudag. Það var Ásgrímur Sigurbjörnsson formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks sem sá um afhendinguna. Klúbburinn er verndari söfnunarinnar og bauð hann upp á kaffiveitingar við tilefnið.
„Í gegnum tíðina höfum við verið að gefa ýmislegt til sjúkrahússins, hjólastóla, sjónvörp og það sem brýn þörf er fyrir á hverjum tíma. Ásta Karen og Anna höfðu samband við okkur, þetta er gott verkefni og við lítum á það sem heiður að fá að koma að þessu,“ sagði Ásgrímur við afhendinguna.
Anna og Ásta Karen stóðust ekki mátið að prófa gripinn í blíðviðrinu sl. laugardag og fóru klukkutíma hjólreiðatúr um allan bæinn. Þær fóru um Freyjugötu, Skagfirðingabraut, Aðalgötu og upp í hverfi. „Þetta var yndislegt - maður var eitthvað svo frjáls,“ sagði Anna Þórðardóttir í samtali við Feyki. Aðspurð hvort henni hafi orðið kalt þvertók Anna fyrir það. „Það var þetta fína veður, smá andvari en hlýtt.“ Þegar þær eru spurð hvort þær hafi hitt mikið af fólki og það heilsað upp á þær í hjólatúrnum svarar Anna að þær hafi verið ósparar við að vinka. „Hún sat svona og veifaði eins og drottning,“ bætir Ásta Karen við og þær hlægja.
Það er starfsfólkið á Dvalarheimilinu sem kemur til með að fara út að hjóla með heimilisfólkið en þeir sem hafa áhuga á að gerast hjólavinir er bent á að ræða við deildarstjóra hjúkrunar, Guðbjörgu Árnadóttur. Ásta Karen segir söfnunina hafa gengið vonum framar og tók hún einungis um tvo mánuði. Þeir vilja koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem lögðu verkefninu lið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.