Nýtt skipulag Byggðasafns Skagafjarðar

Á heimasíðu Byggðasafns Skagafjarðar segir frá því að frá og með áramótum hafi safnið starfað eftir nýju skipulagi. Því verði framvegis skipt í Rekstrarsvið og Rannsókna- og miðlunarsvið. Meginmarkmið safnsins verður sem fyrr að rannsaka og varðveita menningar- og minjaarf Skagfirðinga, koma honum á framfæri og nýta sem tæki til fræðslu, rannsókna, varðveislu menningarerfða og menningarferða.

Rekstrasvið fer með almennan rekstur og umsýslu, húsnæði, starfsmannahald, markaðssetningu og kynningar, gestamóttöku, safnbúð og skipulag viðburða. Rannsókna- og miðlunarsvið sér um skráningu, rannsóknir, sýningar, útgáfu, varðveislu, heimasíðu og aðra miðlun. Megin markmið Rannsóknar- og miðlunarsviðs er að efla þekkingu á minjaumhverfinu og standa fyrir þróunar- og rannsóknarverkefnum út af fyrir sig og í samvinnu við aðra. Fornleifadeild er á Rannsókna- og þróunarsviði.

Deildarstjórar, forsvarsmenn/verkefnisstjórar sérverkefna, starfsmenn og safnstjóri mynda starfshópa sem vinna að úrlausnum hugmynda og verkefna og styrkumsóknum, og móta aðferðir við rannsóknir og úrvinnslu, í samræmi við þekkingu og forgangsröðun verkefna. Verkefnin taka alltaf mið af því að safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Fleiri fréttir