Óbreytt fyrirkomulag á rjúpnaveiði

Fyrirkomulag rjúpnaveiða verður óbreytt frá fyrra ári samkvæmt vef Umhverfisráðuneytisins en umhverfisráðherra greip til þeirrar nýbreytni í fyrra að setja reglugerð um rjúpnaveiði til þriggja ára, nema að óvænt þróun yrði í rjúpnastofninum á tímabilinu.

Veiðitímabilið hefst föstudaginn 29. október og stendur til sunnudagsins 5. desember. Á tímabilinu verður heimilt að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og verða veiðidagar því átján talsins.

Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar var veitt heldur meira af rjúpu í fyrra en áætlanir gerðu ráð fyrir en til að stuðla að því að veiði fari ekki aftur fram úr veiðiráðgjöf hefur Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagt áherslu á það við skotveiðimenn að þeir stundi hófsamar veiðar, en það er ein helsta forsenda þess að rjúpnaveiðar geti haldið áfram með sama hætti á næsta ári. Auk þess verður sölubann áfram í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður áfram friðað fyrir veiði.

Húnaþing vestra hefur gefið út hvernig fyrirkomulag rjúpnaveiða verður á tilteknum jörðum og afréttum í eigu sveitarfélagsins ásamt hluta Víðidalsfjalls, sem er í einkaeigu og er eftirfarandi:

1. Veiðimönnum með gilt veiðikort útgefið af Veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til rjúpnaveiða á tilteknum jörðum og afréttum sveitarfélagsins og í land Hrappsstaða og Syðra Kolugils (sbr. svæði 1). Um verður að ræða þrennskonar leyfi sem gefin verða út á jafnmörg svæði.
Svæðin eru: 1.) Lækjarkot, Gafl (Í sameign Húnaþings vestra og Hrappstaða), Hrappsstaðir og Syðra-Kolugil.

2. Víðidalstunguheiði ásamt Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Öxnatungu.

3.) Arnarvatnsheiði og Tvídægra.

2. Hvert veiðileyfi sem selt er gildir á veiðitímanum frá 29. október 2010 til og með 5. desember 2010 og veitir einungis skráðum handhafa þess heimild til veiða á umræddu svæði á áðurnefndum tíma. Ekki er um að ræða sölu á dagsleyfum. Veiðimönnum er rjálst að kaupa leyfi á fleiri en eitt veiðisvæði.

3. Veiðileyfin verða til sölu á skrifstofu Húnaþings vestra á Hvammstanga, hjá Ferðaþjónustunni Dæli, Ferðaþjónustunni Kolugili og Söluskálanum Hvammstanga. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 5.000- til veiðimanna með lögheimili í Húnaþingi vestra. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 7.500- til veiðimanna með lögheimili utan Húnaþings vestra.

4. Fjöldi veiðimanna á veiðisvæðin verður ekki takmarkaður, en tekið skal fram að leyfishafar hafa einir heimild til veiða á umræddum svæðum. Veiðimenn eru hvattir til að benda þeim er fara á veiðisvæði án leyfis á að nærveru þeirra sé ekki óskað á veiðisvæðinu. Veiðimenn eru einnig hvattir til að tilkynna slík tilfelli til skrifstofu Húnaþings vestra.

5. Veiðimönnum ber skylda til að virða landamerki jarða er liggja að umræddum veiðisvæðum og þeim ber að leita samþykkis landeigenda þurfi þeir að fara um landareignir annara til að komast að veiðisvæði.

6. Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra hafa heimild til að loka vegum og vegslóðum án fyrirvara ef talið er að þeir liggi undir skemmdum vegna tíðarfars og umferðar. Þannig veitir veiðileyfið ekki tryggingu fyrir því að ávallt sé hægt að aka að veiðisvæði. Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að takmörkuðum gæðum eins og rjúpnaveiði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir