Önnur REKO afhendingin á Norðurlandi
Önnur REKO afhendingin á Norðurlandi verður nk. fimmtudag og föstudag, 7. og 8. febrúar, á Blönduósi, Sauðárkróki og á Akureyri. REKO stendur fyrir milliliðalaus viðskipti milli framleiðenda og kaupenda og fara þau viðskipti fram í gegnum Facebook. Viðskiptin fara þannig fram að neytendur panta þær vörur sem í boði eru hverju sinni í gegnum Facebooksíðuna REKO Norðurland þar sem þeir þurfa að sækja um að gerast meðlimir. Framleiðendur setja inn upplýsingar um vörur þær sem þeir bjóða upp á hverju sinni og kaupandinn mætir svo á tiltekinn stað á tilteknum tíma og sækir vöruna. Eingöngu er um afhendingu vörunnar að ræða, aðeins þá daga sem tilgreindir eru og verður að panta allar vörur og greiða fyrir afhendinguna fyrirfram.
Afhendingin verður
- á Blönduósi, við Húnabúð/Bæjarblómið, fimmtudaginn 7. febrúar kl.12-13.
- á Sauðárkróki við N1, Ábæ, fimmtudaginn 7. febrúar kl. 16-17.
- á Akureyri við Jötunvélar, Lónsbakka, föstudaginn 8. febrúar kl. 19-17.
REKO er tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á landi og eins og áður segir er þetta í annað sinn sem slík afhending fer fram á Norðurlandi en sjö slíkir hópar hafa verið stofnaðir víðs vegar um landið. Að sögn Sigrúnar Indriðadóttur, eins af forsvarsmönnum hópsins á Norðurlandi, voru þokkaleg viðbrögð við fyrstu afhendingunni hér á svæðinu þó þau hefðu að ósekju mátt vera betri. Þetta söluform á hins vegar örugglega eftir að festa sig betur í sessi þegar neytendur komast upp á lagið með það.
Vöruúrvalið er mismunandi eftir afhendingarstöðum en meðal vörutegunda sem hægt er að fjárfesta í má nefna gott úrval af kjötvörum frá ýmsum aðilum, kartöflur, heitreykta bleikju með hvönn og villijurtum, sultur, heimagerðan rjómaís, jógúrtís, skyrís og sorbet (mjólkurlaus ís) frá Holtseli Pure Natura og húðvörur unnar úr minkaolíu og íslenskum jurtum.
Tengdar fréttir: Fyrsta REKO afhending á Norðurlandi þann 20. desember og Reytingur á fyrsta REKO afhendingu á Norðurlandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.