Opið hús í Iðju í dag í tilefni alþjóðadags fatlaðra

Í dag gefst gestum Iðju tækifæri til að skoða skynörvunarherbergið sem var afhent í byrjun nóvember. Á myndinni eru þær Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir, Jónína G. Gunnarsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir. Mynd:FE
Í dag gefst gestum Iðju tækifæri til að skoða skynörvunarherbergið sem var afhent í byrjun nóvember. Á myndinni eru þær Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir, Jónína G. Gunnarsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir. Mynd:FE

Alþjóðadagur fatlaðra var í gær þann 3. desember. Dagurinn, sem var fyrst haldinn af Sameinuðu þjóðunum árið 1992, er haldinn til stuðnings við réttindi fatlaðs fólks í heiminum. Talið er að einn af hverjum sjö eigi við einhvers konar fötlun að glíma á lífsleiðinni. Á Íslandi má reikna með að milli fjögur- og fimmþúsund manns falli undir þann hóp.

Í tilefni dagsins verður opið hús í Iðju við Sæmundarhlíð í dag, mánudaginn 4. desember, frá kl 10-15. Klukkan 14 kemur góður gestur í heimsókn og í boði verður jólate ,,iðjusamra'' ásamt meðlæti. Þjónustuþegar og starfsfólk Iðjunnar bjóða alla velkomna í heimsókn.

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formann Öryrkjabandalagsins en í dag veitir Öryrkjabandalagið Hvatningarverðlaun sín í ellefta sinn. „Við höfum reynt að halda pínulítið upp á daginn, og eins með Hvatningarverðlaunin þá notum við þau til að vekja athygli á góðum verkum í samfélaginu okkar og þeim fyrirtækjum sem hafa lagt eitthvað gott til málanna. Þau eiga að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu í málaflokknum og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk. Þau eiga að vera hvatning til að gera enn betur í samfélaginu og endurspegla okkar einkunnarorð, eitt samfélag fyrir alla,“ segir Þuríður Harpa í viðtalinu.

Þuríður segir daginn einnig notaðan til að varpa ljósi á kjör fatlaðs fólks í samfélaginu og nefnir sem daæmi baráttu fatlaðra fyrir NPA og lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Viðtalið við Þuríði má nálgast hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir