Öruggur sigur í Lengjubikarnum á Ísafirði
Lengjubikarinn í körfunni fór í gang um helgina og gerðu Tindastólsmenn sér ferð til Ísafjarðar þar sem þeir mættu 1. deildar liði KFÍ. Stólarnir tóku strax frumkvæðið í leiknum og voru yfir allt til enda en þá var munurinn orðinn 33 stig. Úrslitin 76-109 fyrir Tindastól.
Liðin voru smá stund að taka stigatöfluna til kostanna en Helgi Rafn gerði fyrsta stig leiksins af vítalínunni þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar. Þá hrukku Stólarnir í gang og voru yfir 25-14 að loknum fyrsta leikhluta. Heimamenn minnkuðu muninn í 20-25 í byrjun annars leikhluta en þá gerðu strákarnir næstu 14 stig á tveimur og hálfri mínútu. Aftur komu leikmenn KFÍ og náðu að minnka muninn í átta stig fyrir leikhlé. Staðan 39-47.
Í síðari hálfleik var aldrei spurning hvort liðið væri sterkara og Stólarnir voru fljótlega komnir með um 20 stiga forskot. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 60-81 og í fjórða leikhluta átti Pétur Birgis fínan kafla og munurinn jókst enn meir.
Helgi Rafn var stigahæstur Stólanna með 24 stig og hann tók einnig níu fráköst. Flake kom einnig sterkur inn með 22 stig og þá gerði Pétur 18 stig og átti fimm stoðsendingar. Darrel Lewis tók átta fráköst og átti sjö stoðsendingar.
Tölfræði úr leiknum má finna á síðu KKÍ >
Færri leikir eru spilaður í Lengjubikarnum í ár en síðast, enn er riðlakeppni en aðeins spiluð einföld umferð. Tvö lið fara upp úr hverjum riðli og ljóst er að þar sem Þór Þorlákshöfn dró lið sitt úr keppni að þá eru Tindastólsmenn þegar (nánast) öruggir áfram eftir sigurinn á KFÍ. Þeir eiga eftir að mæta Njarðvíkingum í Njarðvík en leikurinn gegn Þór átti að vera í Síkinu. Það er því einhver bið í að stuðningsmenn Stólanna sjái liðið á heimavelli.