Óskað eftir starfsfólki á útkallslista í bakvarðasveit velferðarþjónustu
Félags- og barnamálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, vinna í sameiningu að því að koma á fót bakvarðasveit í velferðarþjónustu. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að í ljósi atburða síðustu daga og vikna er varðar heimsfaraldur Covid-19 sé ljóst að útbreiðsla veirunnar gæti orðið til þess að erfitt verði að veita þjónustu og álag geti skapast á vissum starfstöðvum. Brýnt sé að tryggja lögbundna þjónustu við slíkar aðstæður og aðstoð til viðkvæmustu hópanna. Því hafi verið ákveðið að fara af stað með svokallaða bakvarðasveit í velferðarþjónustu þar sem einstaklingar geta skráð sig á lista hafi þeir tök á að ráða sig tímabundið, hvort sem er í fullt starf eða tímavinnu.
Óskað er eftir fólki sem getur starfað í þjónustu við fatlað fólk, aldraða, heimilislausa, börn með sértækar stuðningsþarfir, barnavernd og fjárhagsaðstoð. Reynsla af störfum í velferðarþjónustu er kostur en ekki skilyrði. Hæfniskröfur taka mið af viðkomandi starfi.
Um skráningu í bakvarðasveit velferðarþjónustu
Félagsmálaráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tímavinnu, hlutastarf eða fullt starf allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Laun taka mið af kjarasamningi/stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags á þeirri starfstöð sem um ræðir hverju sinni.
Sveitarfélög og stofnanir ráðuneytisins
Sveitarfélög sem óska eftir að ráða starfsfólk í gegnum bakvarðasveit velferðarþjónustunnar geta nálgast upplýsingar um liðsauka hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Stofnanir félagsmálaráðuneytisins geta nálgast sömu upplýsingar hjá ráðuneytinu. Stofnanir munu sjálfar hafa samband við bakverði og ráðningarsambandið verður á milli stofnunar / sveitarfélags og viðkomandi aðila.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag ráðninga er að finna á vef ráðuneytisins.