Ótal fræ að spíra og festa rætur.
Þann 19. nóvember s.l. var haldinn fundur í Ásbyrgi á Laugarbakka um menningar- og heilsusetur Laugarbakkans og samstarfsmöguleika innan héraðs sumarið 2009. Mikill áhugi er hjá heimafólki og ótal fræ að spíra og festa rætur.
Hugmyndin er að sem flestir í Húnaþingi vestra, í ferðaþjónustu, menningarstarfsemi, verslun, matvælaframleiðslu, upplýsingamiðlun, handverks- og listafólk, sagnafólk, opinberar stofnanir og fleiri - taki höndum saman og skapi næsta sumar stemmningu og líf sem byggir á menningararfinum. Verkefnið hefur aðsetur á Laugarbakka, en angar þess teygja sig um allt héraðið. Hér er um að ræða tilraun, sem hugsanlega leggur grunn að framtíðarnýtingu Laugarbakkaskóla, en vekur vonandi þess utan nýjan áhuga á Húnaþingi vestra og styrkir það sem fyrir er.
Verkefnið Laugarbakkinn - menningar- og heilsusetur er samstarfsverkefni Reykjahöfða, Hótel Eddu og Grettistaks, og hluti verkefnis Reykjahöfða um að finna framtíðarhlutverk fyrir skólahúsnæðið á Laugarbakka. Verkefnið hefur fengið styrki frá Vaxtarsamningi og Menningarráði Norðurlands vestra og verða þeir nýttir til undirbúnings, m.a. hönnunar "sögualdarsviðsmyndar" sem tengir saman Hótel Eddu, Grettisból og fleiri þjónustustaði á Laugarbakka.
Þá er byrjað að huga að sögualdarmatseðli og markaði, auk sagnastunda og annarar afþreyingar sem fyrirhugað er að verði á boðstólum fyrir ferðafólk á leið um Húnaþing sumarið 2009. Laugarbakkinn hefur einnig það markmið að efna til samstarfs við sem flesta í Húnaþingi vestra og glæða héraðið nýju lífi fyrir íbúa þess ekki síður en gesti.
Ef þú hefur áhuga á að vera með í þessu verkefni á einn eða annan hátt, eða ert forvitin/n um framtakið, hafðu samband við verkefnisstýruna, Valgerði H. Bjarnadóttur í GSM 895 3319 eða netfanginu valgerdur@vanadis.is