Ótrúlegt en satt sýnd í Króksbíó 1. maí

Stuttmyndin Ótrúlegt en satt eftir Ásthildi Ómarsdóttur, sem er kvikmyndagerðarkona frá Sauðárkróki, verður sýnd fimmtudaginn 1. maí kl. 16:00 í Króksbíó á Sauðárkrókii. Myndin vekur upp mikilvægar spurningar um virðingu og mannúð á dvalarheimilum. Myndin var valin besta stuttmyndin á leiklistarbraut Kvikmyndaskóla Íslands við útskrift skólans í lok síðasta árs og leikur Ásthildur aðalhlutverkið. Í öðrum helstu hlutverkum eru Vigdís Hafliðadóttir, Sólveig Pálsdóttir og Magnús Orri Sigþórsson.
Ótrúlegt en satt fjallar um konu sem upplifir sig utangátta, niðurlægða og ósýnilega á dvalarheimili, þar sem starfsfólkið reynir sitt besta en gjáin á milli þeirra og íbúanna er samt áþreifanleg.
Myndin er ádeila á heilbrigðiskerfið, sérstaklega aðbúnað eldri borgara á dvalarheimilum og aðstæður heilbrigðisstarfsfólks sem þar vinnur. Ásthildur byggir myndina á eigin reynslu þegar hún vann við aðhlynningu og kynntist konu sem sem þar bjó og hafði djúp áhrif á hana. „Mig langar að saga hennar, sem er saga alltof margra, gleymist ekki og geti opnað augu okkar fyrir því að sýna eldra fólki okkar enn meiri virðingu,“ segir Ásthildur.
Hún leggur áherslu á að myndin sé ekki ádeila á heilbrigðisstarfsfólkið sjálft, heldur kerfið sem það vinnur innan. Hún segir nauðsynlegt að undirbúa starfsfólk betur fyrir krefjandi verkefni, eins og umönnun fólks með Alzheimer og að minna reglulega á að meginmarkmið starfsins sé að tryggja eldra fólkinu gott líf á síðustu árum sínum.
„Við getum öll haft áhrif með litlum mómentum,“ segir Ásthildur. „Við þurfum að spyrja okkur: Hvernig viljum við að komið sé fram við okkar fólk – eða okkur sjálf – þegar sá tími kemur, því á endanum varðar þetta okkur öll.“
Þrjár myndir til viðbótar sýndar
Auk myndar Ásthildar verða sýndar þrjár aðrar stuttmyndir eftir útskriftarnemendur Kvikmyndaskólans frá desember 2024.
Þeir fiska sem róa, eftir Hörð Bersa en sú mynd fjallar á skemmtilegan hátt um mann sem er hrifinn af meðleigjanda sínum en þorir ekki að bjóða henni á stefnumót. Hann er svo á síðasta séns þar sem hún er að flytja út.
Hinn eini sanni Jón Spæjó er spennumynd eftir Aron Stephensen og fjallar sú mynd um stærsta verkefni spæjarans hingað til.
Að lokum er það myndin Absolution efir Naila Zahin Ana sem fjallar um Yousuf, trúaðan innflytjanda á Íslandi sem verður náinn samstarfsmanni sínum, Lucasi. Þegar hann játar honum ást sína verður Yousuf að samræma trú sína og samkynhneigð.
(Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.