Óvenjulegur pálmasunnudagur

Hamast við að ýta snjónum af körfuboltavellinum við Árskóla. MYNDIR: ÓAB
Hamast við að ýta snjónum af körfuboltavellinum við Árskóla. MYNDIR: ÓAB

Það er pálmasunnudagur í dag og alla jafna væru allir veislusalir víðast hvar á landinu nú fullir af uppáklæddu fólki að háma í sig hnallþórur eða sötrandi súpur og knúsa sælleg fermingabörn. En það fermist ekkert barn í dag, enda hefur öllum fermingum verið slegið á frest vegna samkomubanns í tilefni af COVID-19. 

Það voru fáir á ferli á Króknum í dag þegar blaðamaður Feykis fór einn rúnt um bæinn. Þrátt fyrir að fólk sé hvatt til að fara vel með sig og vera heima er fólk engu að síður hvatt til að hreyfa sig. Það gladdi því augu að sjá einhverja sprikla í fótbolta á gervigrasinu, enn aðra úti með hundinn og svo var ein fjölskylda að moka körfuboltavöllinn við Árskóla. Þá var setið við eitt borð í Bakaríinu okkar góða og einn Króksari var að viðra sig á Eyrinni en þar var reyndar einnig nokkur hópur í uppskipun.

Og veðrið? Jú, það er ekki gott en þó sennilega skárra á Króknum en víðast hvar annars staðar, enda er hann að austan. Króksarar fá sennilega meiri vind í fangið annað kvöld þegar þessi dugmikli vetur skellir í einn skammt af snarpri suðvestan. Kannski verður hann þá búinn að ausa úr sér að mestu?

En færðin? Flestar heiðar eru lokaðar þegar þetta er skrifað; Holtavörðuheiði, Þverárfjall, Vatnsskarð og Öxnadalsheiði. Sama gildir um Siglufjarðarveg og að heita má alla vegi austan Tröllaskaga. Það er því viturlegast að halda sig heima.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir