Páll skipaður lögreglustjóri á Norðurlandi vestra

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur í kjölfar niðurstöðu sérstakrar valnefndar tilkynnt um skipan í embætti lögreglustjóra í nýjum umdæmum, segir á vef Innanríkisráðuneytisins, en Alþingi samþykkti í vor ný lög um breytingar á umdæmum sýslumanna og lögreglumanna og aðskilnað embættanna.

Embætti lögreglustjóra á landinu verða 9 í stað 15 með nýjum lögum um lögregluumdæmi sem taka gildi um næstu áramót.

Páll Björnsson, sýslumaður á Höfn í Hornafirði, verður lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.

-Efling löggæslunnar hefur verið eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar en með þessum breytingum verða til færri en um leið öflugri embætti. Minni yfirbygging, fjölbreyttur og sterkur hópur löggæslufólks, tækniframfarir og bættur búnaður lögreglu stuðlar að því að starfsemi lögreglunnar innan umdæma verði skipulögð með markvissari hætti. Ég býð nýskipaða lögreglustjóra velkomna til starfa og er þess fullviss að þeir muni leggja sitt af mörkum við að tryggja öryggi almennings og öfluga þjónustu á hverjum stað, segir í tilkynningunni.

Fleiri fréttir