Plastlaus september
Í dag, 1. september, hófst formlega árvekniátakið Plastlaus september. Verkefninu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hve gífurlegt magn af plasti er í umferð og að benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti.
Plast endist í þúsundir ára. Það brotnar niður á mjög löngum tíma og þá sem örplast sem ekki er betra fyrir umhverfið. Úr plasti sem er endurunnið er eingöngu hægt að vinna annað og lélegra plast. Allt plast sem ekki er endurunnið safnast upp á urðunarstöðum eða í náttúrunni, mjög oft í vötnum og sjó og endar oft í vef lífvera sem gerir það að verkum að það getur að lokum endað í þeirri fæðu sem við mannfólið leggjum okkur til munns. Þá inniheldur mjúkt plast stundum efni sem geta raskað hormónabúskap okkar.
Í viðtali á mbl.is á dögunum segir Dóra Magnúsdóttir, verkefnisstjóri fyrir átakið: „Neysluhættir almennings hafa gjörbreyst á fáeinum áratugum. Það er ekki langt síðan fólk fór að nota plastpoka við sín innkaup og um víða veröld drekkur fólk eingöngu vatn úr einnota plastflöskum, stundum margar á dag. Jafnvel hér á Íslandi þar sem okkur býðst dásamlegt lindarvatn beint úr krananum. Gegndarlaus notkun á einnota plasti er enginn greiði við jörðina.“
Á Facebooksíðunni Plastlaus september segir: „Í dag hefst Plastlaus september! Við hvetjum alla til að skrá sig í átakið á plastlausseptember.is og minnka notkun á einnota plasti. Munum að hvert skref skiptir máli, hvort sem við veljum að taka þátt í einn dag eða lengur, og hvort sem plastið sem við forðumst er mikið eða lítið. Heimasíðan er full af ráðum og við ættum öll að geta fundið eitthvað sem við ráðum við að gera.“