Rabb-a-babb 152: Ástrós

Nafn: Ástrós Elísdóttir.
Árgangur: 1982.
Fjölskylduhagir: Gift þriggja barna móðir.
Búseta: Skagaströnd.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Barinn og berfættur vesturbæingur, hef búið í Reykjavík mestallt mitt líf en fluttist norður fyrir tveimur árum.
Starf / nám: Kenni listir og tjáningu í Höfðaskóla á Skagaströnd og er að ljúka meistaranámi í ritlist, er menntaður leikhúsfræðingur, leiðsögumaður og söngkona.
Hvað er í deiglunni: Ég er að kaupa mér hús.

Hvernig nemandi varstu? Samviskusamur nemandi, á fremsta bekk (kannski líka af því að ég heyri frekar illa).

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Veðrið var svo gott og ég var að springa úr hamingju.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Það var alltaf að breytast. Það fyrsta sem ég talaði um var víst að ég vildi verða mamma. Einhvern tímann ætlaði ég að verða rithöfundur og bakari. En lengst af langaði mig að verða sendiherrafrú – ég nennti ekki að standa í að vera sendiherra sjálf en sá í hillingum að halda endalausar veislur, baka og skreyta og undirbúa, og fá svo að tala við fólk á alls konar tungumálum.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Bangsi bestaskinn.

Besti ilmurinn? Af nýfæddum börnum.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Þá var ég dálítið mikið í hip-hoppinu. Blackstreet, A Tribe Called Quest, Dilated peoples og eitthvað svona. Hætti samt aldrei að hlusta á jazz.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Allt fullt! Kannski The Winner Takes It All.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Af línulegri dagskrá fylgist ég helst með íslenskum leiknum þáttaröðum, t.d. Ófærð og þess háttar sem enginn má missa af, og svo þessari skandínavísku snilld sem stundum er boðið upp á, t.d. Broen og SKAM.

Besta bíómyndin? Non ci resta che piangere. Leikararnir eru frábærir, myndin er svo fyndin og það er svo gaman að Napólí-mállýskunni.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Hmm. Surya Bonali, skautadrottningunni.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Tala ítölsku.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Þakkargjörðaveisla með öllu.

Hættulegasta helgarnammið? Eðla.

Hvernig er eggið best? Þegar það kennir hænunni.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Að ég geri alltaf allt á síðustu stundu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Nöldur og neikvæðni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Þegar þú kvartar, gerirðu sjálfan þig að fórnarlambi. Farðu úr aðstæðunum, breyttu þeim eða sættu þig við þær. Allt annað er brjálæði. – Eckhart Tolle.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég man eftir að hafa verið að horfa á sæljón í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Þá var ég víst eins árs.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Engin ein sérstök, en teiknimyndasöguheimur Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur, Lóaboratoríum, höfðar alltaf til mín.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Sigurður Pálsson heitinn. Ljóðin hans snerta við mér og svo er hann albesti kennari sem ég hef haft.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Passaðu þig! Ég á þrjú börn og er að reyna að hætta að segja þetta svona oft, þarf að treysta þeim betur.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Það er svo afstætt! Ég ætla að velja mikilvægustu persónuna okkar megin í heiminum á síðustu 100 árum: Astrid Lindgren.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi á 7. áratug síðustu aldar. Ég hef alltaf verið heilluð af því tímabili, og svo myndi ég nýta tækifærið og fara á tónleika með frábæru tónlistarfólki.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Til Sardiníu.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Prjónadót, Leatherman-inn minn og nóg að drekka. 

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Koma börnum mínum til manns, flytjast til heitara lands og gefa út bók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir