Ráðið í stöður yfirhjúkrunarfræðinga við HSN á Sauðárkróki

Kristrún Snjólfsdóttir og Elín Árdís Björnsdóttir. Mynd: hsn.is
Kristrún Snjólfsdóttir og Elín Árdís Björnsdóttir. Mynd: hsn.is

Ráðið hefur verið í störf yfirhjúkrunarfræðings svæðis og yfirhjúkrunarfræðings heilsugæslu á HSN Sauðárkróki en störfin voru auglýst laus til umsóknar í lok maí. Sagt er frá þessu á vef HSN.

Kristrún Snjólfsdóttir var ráðin sem yfirhjúkrunarfræðingur svæðis á Sauðárkróki. Hún hefur undanfarin ár starfað sem yfirhjúkrunarfræðingur á deild I og II á HSN Sauðárkróki. Kristrún lauk diplómanámi í stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Akureyri í sumar. Hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 2000 og hefur starfað sem slíkur á Sauðárkróki síðan þá. Áður vann Kristrún sem sjúkraliði á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks en hún lauk sjúkraliðaprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 1996.

Kristrún tekur við starfinu þann 1. október nk. en þá lætur Herdís Klausen af störfum sem yfirhjúkrunarfræðingur svæðis. 

Elín Árdís Björnsdóttir var ráðin í starf yfirhjúkrunarfræðings heilsugæslu á Sauðárkróki. Hún er með meistarapróf í heilsugæsluhjúkrun frá Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá sama skóla árið 2016. Síðan þá hefur hún unnið á sjúkradeild og á heilsugæslu HSN Sauðárkróki.

Elín Árdís tekur við starfinu þann 1. október nk. en þá lætur Guðrún Jóhannsdóttir af störfum sem yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir