Ráðning framkvæmdastjóra sett í hendur nýrrar stjórnar

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hefur ákveðið að fela nýrri stjórn að ráða nýjan framkvæmdastjóra en ársþingið fer fram 16. – 17. október nk. Jón Óskar Pétursson, sem hafði tekið árs námsleyfi, sagði starfi sínu sem framkvæmdastjóri SSNV lausu fyrr í sumar. Katrín María Andrésdóttir, atvinnuráðgjafi hjá SSNV, leysti Jón af í leyfinu en hún lét af störfum í lok september.

Að sögn Bjarna Jónssonar formanns stjórnar SSNV var starfið auglýst laust til umsóknar þegar ljóst var að Jón Óskar snéri ekki aftur og rann umsóknarfrestur út þann 7. júlí sl. Þrettán umsóknir bárust um starfið, þrír drógu umsóknir sínar til baka og varð niðurstaðan að hinum umsóknunum var hafnað.

„Stjórn SSNV samþykkti að leitað yrði að einstaklingi til að gegna starfi framkvæmdastjóra samtakanna. Þrátt fyrir að viðræður hafi átt sér stað við mögulega kandídata í starfið leiddu þær ekki  til þess að gengið væri til ráðningar á nýjum framkvæmdastjóra samtakanna,“ segir Bjarni í samtali við Feyki.

Í ljósi þess að nú styttist í aðalfund samtakanna segir Bjarni að ákveðið hafi verið að fela nýrri stjórn að ganga frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra. Stjórn fól formanni SSNV að gegna starfsskyldum framkvæmdastjóra í október, fram yfir ársþing samtakanna.

Í útsendum drögum að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár segir Bjarni núverandi stjórn leggja til töluverða sókn í atvinnumálum á Norðurlandi vestra þar sem hægt verður að bæta við tveimur atvinnuráðgjöfum frá því sem nú er og nýta til þess sterka fjárhagsstöðu samtakanna án þess að sveitarfélögin þurfi að leggja meira til þeirra.

„Ef það verður niðurstaða ársþings að fara þessa leið, kemur það í hlut nýrrar stjórnar að útfæra það og staðsetja nýjar stöður atvinnuráðgjafa en fyrir liggur að nokkru hvar þörfin er mest,“ segir Bjarni að lokum.

Fleiri fréttir