Rannsaka líðan þjóðar á tímum COVID-19

Vísindamenn Háskóla Íslands hafa í samstarfi við Embætti landlæknis og sóttvarnarlæknis hrundið af stað vísindarannsókninni Líðan þjóðar á tímum COVID-19. Markmiðið með rannsókninni er að afla sem mestrar þekkingar á áhrifum faraldursins á líðan og lífsgæði landsmanna til þess m.a. að geta í framtíðinni brugðist enn betur við áhrifum samfélagslegra áfalla á borð við heimsfaraldur. Öllum einstaklingum eldri en 18 ára sem hafa rafræn skilríki er boðið að taka þátt í rannsókninni á vefsíðunni lidanicovid.is.

Að rannsókninni stendur reyndur hópur vísindamanna undir forystu Unnar Önnu Valdimarsdóttur, prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni á þessu sviði.

„Íslendingar eru almennt jákvæðir fyrir þátttöku í vísindarannsóknum en líklega hefur þjóðin aldrei verið jafn meðvituð um mikilvægi vísinda og akkúrat núna. Heimsfaraldur COVID-19 er samfélagslegt áfall á heimsvísu en við Íslendingar höfum hér einstakt tækifæri til að skilja betur hvaða þættir hjálpa og hvaða þættir eru íþyngjandi í þessum óvenjulegu aðstæðum,“ segir Unnur.

Alma D. Möller landlæknir segir að fjöldi erinda til Heilsugæslunnar hafi aukist, meðal annars vegna kvíða og ótta við smit, en einnig hafi orðið aukning á símtölum í hjálparsíma Rauða krossins vegna einmannaleika. Alma segir að einnig sé hætt við að áfengisneysla aukist og að sögn lögreglu séu vísbendingar um að heimilisofbeldi fari vaxandi. Þá sé líklegt að áhrif faraldursins á samfélagið geti orðið langvinn. „Það er því mjög mikilvægt að skoða hver þau eru og rannsaka þessa þætti á vandaðan hátt svo hægt sé að bregðast rétt við,“ segir Alma.

Hægt er að taka þátt í rannsókninni á vefsíðunni lidanicovid.is með því að svara stuttum spurningalista en á vefnum eru jafnframt allar frekari upplýsingar um rannsóknina. 

Fleiri fréttir