Reynt að útkljá ágreining um sýslumörk
Sveitarfélögin þrjú sem land eiga á Skagaheiði, Skagabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður, ætla nú að freista þess að ná niðurstöðu í áralangri deilu um sýslumörk á heiðinni. Í fundargerð byggðarráðs Skagafjarðar frá 4. janúar sl. segir að kynnt hafi verið að Ólafur Björnsson hrl. muni boða til sáttafundar í málinu fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar með fulltrúum Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagabyggðar.
Ríkisútvarpið fjallaði um málið í fréttum í gær. Þar kom fram að sýslumörkin á stuttum kafla á Skagaheiði hafi ekki verið á hreinu svo árum skiptir. Vegna þess að hluti landsvæðisins er þjóðlenda hafi þurft að skrá og hnitsetja mörkin fyrir nokkrum árum. Það gekk ágreiningslaust að mestu en Húnvetninga og Skagfirðinga greinir þó á um hvar skilgreina skuli mörkin á um tveggja kílómetra kafla í kringum Hraunvatn. Svæði þetta tilheyrir sveitarfélögunum þremur.
Í frétt RUV er vitnað í frétt Morgunblaðsins frá 2015. Þar kemur fram að ágreiningsefnið sé hvort skilgreina skuli mörkin „vestan við Hraunvatn“ eða „um Hraunvatn vestanvert“ Í þeirri frétt var haft eftir sveitarstjórnarmönnum að reynt yrði að komast að niðurstöðu á næstunni en deilan er þó enn óleyst. Vignir Sveinsson, oddviti Skagabyggðar, segir í samtali við fréttastofu RUV að málið hafi ekki verið í forgangi síðustu ár en vegna þjóðlendumála hafi forsætisráðuneytið hins vegar þrýst á að fá niðurstöðu. Vignir vonast eftir að niðurstaða náist á fundinum. Í sama streng tekur Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar sem segir mikilvægt að ná ásættanlegri niðurstöðu. „Þetta snýst um landsvæði, vötn, veiðirétt og annað og bændur okkar megin á Skaga hafa verið að nýta þetta og vilja gera áfram. Við verðum að gæta hagsmuna íbúa okkar þarna eins og annars staðar,“ segir Stefán Vagn í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.