Riða greinist aftur í Skagafirði

Ólíklegt er að þessar kindur beri riðusmit. Mynd úr myndasafni.
Ólíklegt er að þessar kindur beri riðusmit. Mynd úr myndasafni.

Riðuveiki hefur verið staðfest á bænum Vallanesi í Varmahlíð í Skagafirði. Síðast greindist riða á þessu svæði árið 2016 á bæjunum Brautarholti og Stóru-Gröf ytri. Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða.

Á heimasíðu MAST kemur fram að riðan hafi greinst í sýni úr kind frá bænum þar sem nú eru um 370 fjár. Sýnið var tekið samkvæmt skimunaráætlun Matvælastofnunar við slátrun í sláturhúsi. Átta önnur sláturhúsasýni frá búinu voru einnig rannsökuð í sömu sendingu og reyndust neikvæð. Ekki hafði orðið vart neinna sjúkdómseinkenna eða óeðlilegra affalla. Sýnin voru rannsökuð á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Mikill fjöldi sýna verður tekinn við komandi haustslátrun og rannsökuð með tilliti til skimunar á riðu.

Búið er í Húna- og Skagahólfi og í því hólfi hefur riðuveiki komið upp á tuttugu búum á undanförnum 20 árum en á þessu búi greindist veikin síðast árið 2007. Riðuveiki hefur komið upp á mörgum bæjum kringum Varmahlíð í gegnum tíðina og um þekkt riðusvæði er að ræða.

Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir