Ríkið gaf upplýsingar miðað við gamlar tölur
Hafsteinn Sæmundsson, forstöðumaður heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, hafði samband vegna fréttar um fækkun stöðugilda á heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi vestra fyrr í vikunnu. Segir Hafsteinn að þegar ríkið svaraði fyrirspurn Gunnars Braga hafi verið unnið með gamlar upplýsingar þar sem miðað við var 30% niðurskurð en ekki 10 eins og raunin varð.
Í athugasemd frá Hafsteini segir; „Svar ráðuneytisins miðast við fyrstu tillögur í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 en þá var miðað við að niðurskurður til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki (HS) yrði um 30%. Ekki var haft samráð við okkur á HS þegar það svar var undirbúið. Í meðförum Alþingis breyttust svo þessi áform og er okkur nú ætlað að skera niður um 10% frá fjárlögum ársins 2010. Það er því fjarri lagi að til svo mikillar fækkunar starfsmanna komi hjá HS.“