Rúður brotnuðu í óveðri næturinnar

Það hefur eitthvað gengið á í eldhúsinu á Steini í nótt.
Það hefur eitthvað gengið á í eldhúsinu á Steini í nótt.

Það var ansi hvasst á norðanverðu landinu síðasta sólarhring er suðvestanstormur og rok gekk yfir landið. Svo hvasst var í Fljótum að húsráðendur á Reykjarhóli yfirgáfu heimili sitt og á Reykjaströnd brotnuðu rúður og hlutir fuku.

Við sögðum frá því í gær að hviður hefðu komist í 48 m/s þá um morguninn á sjálfvirkri veðurstöð Vegagerðarinnar við Stafá á mótum Sléttuhlíðar og Fljóta. En um miðjan dag fauk það met er hviður komust í yfir 50 m/s. Að sögn Sjafnar Guðmundsdóttur, ábúenda á Reykjarhóli og rekstraraðila Guesthouse Gimbur, ákváðu þau hjón að flytja sig úr íbúðarhúsinu og í gistihúsið meðan mesti djöfulgangurinn reið yfir. Íbúðarhúsið er timburhús og lék allt á reiðiskjálfi og til marks um lætin þótti ekki annað fært en að tína myndir af veggjum heimilisins.

Á Reykjaströnd, undir Tindastól, gerði einnig mikið hvassviðri og tjónuðust margar rúður í byggingum og bílum. Um miðnættið var snælduvitlaust veður og varð Brynjólfur bóndi á Fagranesi var við að rúður brotnuðu í heimilisbílnum, og líklegt að grjót hafi fokið af bílaplaninu auk þess sem sjö rúður sprungu í minkahúsinu. Barnaróla tókst á loft og þeyttist langar leiðir og jarðföst rennibraut skekktist mikið. Þá segir Brynjólfur að þó nokkuð tjón hafi orðið í skjólbeltaræktuninni þar sem plast ofan af beðunum hvarf út í buskann. Brynjólfur var samt brattur er Feykir hafði samband við hann og sagðist hafa séð það verra.

Skammt fyrir sunnan Fagranes býr Gústav Bentsson á Steini. Hann vaknaði við mikil læti um fimm leytið í morgun er rúða í eldhúsinu hjá honum splundraðist og glerbrot þeyttust út um allt. Telur hann að eitthvað hafi fokið í rúðuna þar sem hún er til þess að gera lítil, um 70x50 sm.

Auk gluggans í eldhúsinu brotnuðu tvær rúður í skemmu skammt frá húsinu. Gústav var líkt og nágranni hans brattur eftir nóttina og sagði að eldhúsið hefði fengið allsherjar hreingerningu í morgun og sem betur fer hefðu kindurnar ekki fokið þar sem mestu verðmætin væri í þeim.

Þrátt fyrir óviðrið síðasta sólarhring hafði lögreglunni ekki borist neinar tilkynningar um tjón í morgun og björgunarsveitir í Skagafirði voru ekki kallaðar út.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir