Rúm vika í skreytidag – eruð þið byrjuð að undirbúa?

Skipuleggjendur Húnavöku 2012 vildu koma þeirri ábendingu til bæjarbúa á Blönduósi að nú er rétt rúm vika í að hátíðina en óformleg dagskrá hefst á miðvikudag eftir viku er bæjarbúar skreyta bæinn hátt og lágt. Litir eru óbreyttir frá fyrri árum og eru bæjarbúar hvattir til þess að sleppa fram af sér beislinu og skreyta bæinn sem aldrei fyrr.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á dagskrá auk þess sem samningaviðræður standa yfir við veðurguðina um að sól og sumarylur láti sjá sig á hátíðinni.

„Hvað bæjargrillið varðar þá minnum við á að grill verða á staðnum en þeir sem eiga lítil ferðagrill sem auðvelt er að taka með sér eru hvattir til þess að gera það auk þess sem við mælumst með að kubb, krikket og fleiri leikföng verði tekin með,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum.  Nákvæm staðsetning á grillinu verður auglýst á næstu dögum.

Jafnframt minna aðstandendur á Facebook leik Húnavöku sem stendur sem hæst en í dag hafa 4119 manns séð auglýsingu um leikinn og hátt í 200 tekið þátt. Til mikils er að vinna en vinningshafi verður tilkynntur þriðjudaginn 17. júlí.

 

Fleiri fréttir