Safnadagurinn á Norðurlandi vestra - Myndir
Það er jafnan mikið um að vera í söfnum landsins á Íslenska safnadeginum, sem að þessu sinni var haldinn hátíðlegur sunnudaginn 13. júlí. Söfnin á Norðurlandi vestra eru þar engin undantekning og efndu þau til viðburða í tilefni dagsins.
Tónlistamennirnir Einar Lövdahl og Skúli Jónsson voru með bráðskemmtilega tónleika í hákarlaskipinu Ófeigi sem staðsett er á byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði. Voru það þriðju tónleikar sumarsins í skipinu forna og hafa þeir að sögn Sigríðar Bachman forstöðumanns mælst vel fyrir.
Margt var um manninn á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og þar voru sýndar ýmsar aðferðir við handverk, svo sem tekið ofan af, kembt, spunnið, prjónað, saumað út, gimbað, heklað og slegið í vef. Að sögn Elínar Sigurðardóttur forstöðumanns safnsins var ánægjulegt hver margir gáfu sér tíma til að eiga samveru stund og þiggja bóndakökur sem skolað var niður með kaffi eða kókómjólk.
Aðsókn að Byggðasafni Skagfirðinga var góð þennan dag, og segir Sigríður Sigurðardóttir safnvörður að gestir hafi verið 752 í Glaumbæ og 72 í minjahúsinu á Sauðárkróki, eða samtals 824 á báðum sýningarstöðum safnsins.
Meðfylgjandi myndir fékk Feykir sendar frá söfnunum þremur.
.