Salurinn tók undir á söngskemmtuninni „Syngdu mig heim“
Síðastliðið föstudagskvöld var söngskemmtunin „Syngdu mig heim“ í félagsheimilinu á Hvammstanga í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum. Tæplega 100 tónleikagestir klöppuðu tónlistarfólkinu lof í lófa að dagskrá lokinni samkvæmt vef Norðanáttar og tók salurinn saman lögin Káta Vikurmær eða Fornar ástir, Komdu litla ljúfa og Kvöldljóð.
Listrænn stjórnandi og skipuleggjandi tónleikanna var Sigurður Helgi Oddsson og var söngskemmtunin einnig flutt á Akureyri sl. sunnudag.
„Jón frá Ljárskógum í Dölum fæddist 28. mars 1914 og var á sinni tíð landsþekktur bæði fyrir söng og skáldskap og ekki hvað síst fyrir söng sinn með M.A.-kvartettinum, sem með réttu mætti kalla fyrstu dægurstjörnur íslenskrar tónlistarsögu,“ segir um Jón á vef Norðanáttar en myndir, og nánar um tónleikana, má nálgast á vefnum.