Samið við sjúkraþjálfara eftir fjögurra ára samningsleysi

Frá undirritun samninga í gær. MYND: STJÓRNARRÁÐIÐ.IS
Frá undirritun samninga í gær. MYND: STJÓRNARRÁÐIÐ.IS

Það gleður eflaust margan manninn að nýr samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara til fimm ára var undirritaður í dag og staðfestur af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Á vef stjórnarráðsins er haft eftir Willum: „Þetta eru mikil tímamót eftir rúmlega fjögurra ára samningsleysi sem hefur bitnað á notendum þjónustunnar. Með samningnum falla niður aukagjöld sem lögð hafa verið á þjónustuþega. Samningurinn stuðlar þannig að auknum jöfnuði. Jafnframt er kveðið á um margvíslegt þróunar- og gæðastarf þjónustunnar í þágu notenda.“

Frá og með 1. júní falla niður þau aukagjöld sem lögð hafa verið á sjúklinga í samningsleysinu. Þann 1. október tekur samningurinn síðan gildi að fullu, þegar lokið er nauðsynlegum tæknilegum útfærslum og forritunarvinnu. Á samningstímanum verður unnið að útfærslu ýmissa úrbóta- og þróunarverkefna sem kveðið er á um í samningnum.

Hætta að taka aukagjald af einstaklingum

Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru miklum mun fleiri, eða um 928.000. Árið 2022 leituðu 55.752 til sjúkraþjálfara þannig að aukningin milli ára nam um 11,3%. Það sem af er ári 2024 hafa nú 41.964 farið í sjúkraþjálfun sem er 3,9% aukning frá því sama tíma í fyrra.

Á því árabili sem enginn samningur hefur verið í gildi við sjúkraþjálfara hafa Sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði við þjónustu þeirra samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Sjúkraþjálfarar hafa á þeim tíma innheimt aukagjald við hverja komu sem hefur gjarnan numið á bilinu 1.500 - 3.000 kr. Sjúkraþjálfara munu hætta að innheimta þessi aukagjöld frá og með 1. júní.

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir