Samkomubann á Íslandi eftir helgi

Tilkynnt var á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu kl. 11 í morgun að samkomubann muni taka gildi á landinu frá og með miðnætti 15. mars nk. og standa yfir í fjórar vikur. Háskólar og framhaldsskólar landsins munu loka en grunn- og leikskólar starfa áfram með ákveðnum skilyrðum.
Samkomubannið tekur mið af 100 manna samkomum eða fjölmennari og fyrir samkomur með færri en 100 þurfa aðstæður að vera þannig að tveir metrar séu á milli fólks.
Mælst er fyrir að fólk og verslunareigendur passi upp á að fjöldi viðskiptavina fari ekki yfir þessar viðmiðnartölur en það kom fram á fundinum að lögregla verði ekki við dyr verslana til að framfylgja banninu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði að bannið muni hafa mikil efnahagsleg áhrif í landinu en það séu heilbrigðismálin sem gangi fyrir.
Allt messuhald og vorfermingar falla niður í Þjóðkirkjunni og ekki ljóst á þessari stundu hvenær farið verður af stað aftur með hefðbundið starf.