Sammála kaupfélagshugsjóninni - Grímur Hákonarson í viðtali í Feyki

Grímur Hákonarson, leikstjóri Héraðsins er í aðalviðtali Feykis þessa vikuna. Hann fer yfir tilurð myndarinnar, líkindi kaupfélaganna í Skagafirði og Erpsfirði og fleira. Mynd aðsend.
Grímur Hákonarson, leikstjóri Héraðsins er í aðalviðtali Feykis þessa vikuna. Hann fer yfir tilurð myndarinnar, líkindi kaupfélaganna í Skagafirði og Erpsfirði og fleira. Mynd aðsend.

Feykir vikunnar er nýkominn úr prentvélinni og í honum er margt að skoða eins og oft áður. Í aðalviðtali er Grímur Hákonarson, leikstjóri og handritshöfundur Héraðsins, opið bréf til kaupfélagsstjóra og stjórnar KS, viðtal við stofnendur Spæjaraskólans, splunkuný saga af hinum vitgrönnu Bakkabræðrum, sem bjuggu í Fljótum forðum daga auk fastra liða eins og áskorandapenna, matarþáttar og hinum feykilega vinsæla vísnaþætti, þeim 741. í röðinni.

Grímur leikstjóri segist í viðtalinu telja sig sósíalista eða félaghyggjumann og vera sammála kaupfélagshugsjóninni í grunninn en sé talsmaður valddreifingar.

„Til dæmis eftir hrunið þegar mörg bú á Suðurlandi fóru á hausinn, með róbótafjósum, en í Skagafirði fór enginn á hausinn. Ég geri mér grein fyrir því að það er ákveðinn kostur að hafa svona öflugt fyrirtæki en á hinn bóginn þá er það alltumlykjandi og er með sterk ítök á svæðinu, sem sker sig svolítið úr öðrum svæðum á Íslandi hvað það varðar.

Ég er talsmaður valddreifingar, held að það sé aldrei gott að völd safnist á fáar hendur. Það býður upp á spillingu og misnotkun valds, og án þess að ég sé að saka einhvern um það þá er það mín almenna skoðun og hefur ekkert með það að gera hvort þar sé samvinnufélag eða einkafyrirtæki á ferðinni. Í sumum bæjum eru öflug útgerðarfélög sem eru einkarekin og hafa mikil völd á svæðinu. Þetta getur alveg átt við það.“ 

Áskrift

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir