Samningar um samstarf Skagafjarðar og Sýndarveruleika samþykktir

Sveitarstjórn í húsakynnum sýndarveruleikasýningarinnar en þar fór fram kynning á fyrirhugaðri starfsemi 1238 – The Battle of Iceland . Aðsendar myndir.
Sveitarstjórn í húsakynnum sýndarveruleikasýningarinnar en þar fór fram kynning á fyrirhugaðri starfsemi 1238 – The Battle of Iceland . Aðsendar myndir.

Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar í gær voru samþykktir samningar á milli Sýndarveruleika ehf. og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um uppbyggingu nýrrar ferðaþjónustustarfsemi á Sauðárkróki.  Samkvæmt þeim mun Sýndarveruleiki koma upp og starfrækja sýningu um Sturlungaöldina þar sem áhersla er á nýjustu tækni í miðlun, m.a. með sýndarveruleika. Ætlunin er að sýningin skapi vel á annan tug beinna starfa í Skagafirði og að hún efli Skagafjörð sem áfangastað fyrir ferðafólk.

Í meginatriðum gengur samningurinn út á að Sýndarveruleiki ehf. fjármagnar, byggir upp og rekur sýningar byggðar á Sturlungasögu í Aðalgötu 21 á Sauðárkróki.  Sýningin hefur fengið nafnið 1238 – The Battle of Iceland og þar verður áhersla lögð á að miðla sögu Sturlungaaldar með hjálp nýjustu tækni í miðlun s.s. með sýndarveruleika.  Auk þess verður í húsnæðinu veitingaaðstaða, safnbúð og snyrtingar, auk upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn sem rekin verður á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sveitarfélagið leggur Sýndarveruleika jafnframt til húsnæði undir áðurnefnda starfsemi endurgjaldslaust en Sýndarveruleiki mun annast rekstur þess.

Fjárfesting Sýndarveruleika ehf. í áðurnefndri sýningu og uppbyggingu í Skagafirði hleypur á hundruðum milljóna króna.  Nú starfa hjá fyrirtækinu tveir starfsmenn í fullu starfi, Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri og Svanhildur Pálsdóttir verkefnastjóri og ráðningar á fleira starfsfólki hefjast í upphafi nýs árs.  Sýndarveruleiki er í eigu fjögurra fjárfestingahópa, meirihlutaeigendur og leiðandi fjárfestar eru fyrirtæki í eigu Ingva Jökuls Logasonar.

Áætlað er að opna sýninguna 1238 – The Battle of Iceland á fyrsta fjórðungi næsta árs og búast má við að hún muni skapa 12-14 bein störf í ferðaþjónustu á Sauðárkróki. Opnun hennar er ætlað að fjölga þeim ferðamönnum sem sækja Norðurland og Skagafjörð heim og efla þannig alla ferðaþjónustu á svæðinu. Sýningin hefur þegar fengið mikil og góð viðbrögð hjá ferðaskipuleggjendum og aðilum sem standa að markaðsmálum íslenskrar ferðaþjónustu erlendis.  

Meðfylgjandi myndir eru frá kynningu sem Sýndarveruleiki ehf. hélt fyrir fulltrúa í sveitarstjórn í gær. 

Ingvi Jökull Logason segir „Það hefur verið unnið að þessu verkefni í um það bil tvö ár og það er alltaf gaman að sjá metnaðarfull verkefni fæðast og ná þroska líkt og þetta hefur verið að gera. Þetta er enn ein fjöðrin í hatt Skagafjarðar sem nú þegar er byrjuð að virka sem segull á ferðamenn og auka áhuga á svæðinu. Starfsemin mun einnig auka fjölbreytni starfa í Skagafirði og hafa jákvæð áhrif á samfélagið.“

Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri 1238 segir: „Það er ánægjulegt að þessum áfanga er náð og að allir samningar sem verkefnið byggir á eru frágengnir.  Nú tekur við spennandi tími þar sem við setjum upp þær sýningar sem búið er að undirbúa og nú er það í höndum okkar sem erum komin til starfa hjá fyrirtækinu að breyta þessari spennandi hugmynd í áhugaverðan valkost fyrir ferðafólk sem vill kynnast sögu Sturlungaaldarinnar og upplifa um leið skemmtilega afþreyingu“.

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri í Skagafirði segir: „Við höfum lengi haft áhuga á að sjá Skagafjörð eflast enn frekar á sviði ferðaþjónustu og sjá hér fleiri ferðamenn sem dvelja í lengri tíma og upplifa allt það áhugaverða sem er í boði í héraðinu. Uppbygging starfsemi sem þessarar og sú öfluga markaðssetning sem henni fylgir á Skagafirði á að geta verið segull sem stuðlar að þessu markmiði og styður þar með almennt við enn frekari uppbyggingu greinarinnar. Þá eru ný og fjölbreytt bein og óbein störf alltaf fagnaðarefni og ég hlakka til að sjá starfsemina fara í gang á nýju ári.“

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir