Samningar um sóknaráætlanir undirritaðir í gær

Við undirritun samninganna. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Mynd: stjornarradid.is
Við undirritun samninganna. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Mynd: stjornarradid.is

Í gær voru undirritaðir nýir sóknaráætlanasamningar við átta landshlutasamtök sveitarfélaga. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar landshlutasamtakanna, þar á meðal Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV,  undirrituðu samningana við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum. Grunnframlag ríkisins til samninganna árið 2020 nemur 716 milljónum króna en alls nema framlögin 929 milljónum króna með viðaukum og framlagi sveitarfélaga. 

Samningarnir byggja á lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og gilda til fimm ára, 2020-2024. Á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins segir að markmið laganna sé að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga, jafnframt því að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar.

Sóknaráætlanir landshluta eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Markmiðið er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna. 

„Sóknaráætlanir eru öflugt tæki sem heimamenn í hverjum landshluta geta beitt til að efla blómlegar byggðir um land allt. Hugmyndafræði sóknaráætlana gengur út á að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Þær hafa sannað gildi sitt en grunnhugsunin er valdefling landahluta er byggi á stefnumótun, áherslum og áætlanagerð þeirra,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Gegnum sóknaráætlanir er lagður grunnur að öflugu menningarstarfi um land allt en framlög fara bæði til menningarstofnana og til einstakra verkefna í skapandi greinum. Menningarlíf nærir samfélagið á hverjum stað, bæði fyrir þá sem skapa og þá sem þess njóta og ég hvet áhugasama til þess að kynna sér þau fjölbreyttu verkefni sem þessu tengjast og þá möguleika sem felast í menningarsamstarfi ríkisins og sveitarfélaganna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.  

Árið 2020 er gert ráð fyrir að grunnframlag ríkisins til samninganna verði 716,1 m.kr., þar af 492,5 frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og 223,6 frá menntamálaráðuneytinu. Til viðbótar eru gerðir sérstakir viðaukar um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið leggi 100 m.kr til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða, mennta- og menningarmálaráðuneytið leggi 32,8 m.kr. til menningarmiðstöðva og að umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggi til 10 m.kr. til verkefna sem tengjast hringrásarhagkerfi og loftslagsmálum. Loks koma til framlög sveitarfélaga, en áætlað er að þau nemi um 70 m.kr. á árinu 2020.

Forsögu sóknaráætlana má rekja til ársins 2011 þegar byrjað var að þróa hugmyndafræðina innan Stjórnarráðsins en fyrstu samningar um sóknaráætlanir landshluta voru gerðir árið 2013. Verklag sóknaráætlana hefur reynst vel og almenn ánægja er með það, bæði meðal ríkis og sveitarfélaga. Í tvígang hefur verið gerð óháð úttekt á framkvæmd samninganna sem styður við þetta mat.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir