Samstarf listamiðstöðva og fræðslustofnana á Norðurlandi vestra

Listamennirnir þrír sem heimsóttu FNV. Mynd tsb.is
Listamennirnir þrír sem heimsóttu FNV. Mynd tsb.is

Í gær hófst tilraunaverkefni um samstarf listamiðstöðva og fræðslustofnana á Norðurlandi vestra þegar þrír listamenn sem dvelja í Listamiðstöðinni Nesi á Skagaströnd heimsóttu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Tilraunverkefnið er samstarfsverkefni Þekkingarsetursins á Blönduósi, Nes listamiðstöðvar og Textílseturs Íslands og felst það í heimsóknum listamanna í skóla á Norðurlandi vestra. Markmið verkefnisins er að efla samstarf milli listamiðstöðva við skólastofnanir á svæðinu og gefa nemendum tækifæri til að kynnast fjölbreytileika í listum frá ólíkum menningarheimum.

Það voru listamennirnir Meaghan Bisset og Selian Latour, sem eru útskrifaðar frá Nova Scotia College of Arts and Design og Kristine Woods, textílkennari og aðstoðarprófessor við Maryland Institute College of Art sem heimsóttu skólann og fluttu fyrirlestur fyrir nemendur á nýsköpunarbraut og í kvikmyndanámi tengdum starfsferli og listasviðum sínum.

Næst á dagskrá eru heimsóknir í grunnskólana á Skagaströnd, Hofsósi og Blönduósi, en stefnt er á að heimsækja alla skóla á Norðurlandi vestra fyrir jól, að því er fram kemur á vef Þekkingarsetursins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir