Samstarfssamningur um dreifnám undirritaður í A-Hún

Fjölmenni var í gær í húsnæði Dreifnámsins í A-Hún, sem eitt sinn hýsti skrifstofur Kaupfélags Húnvetninga, en þar var fólk komið saman vegna undirritunar samstarfssamnings á milli Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og sveitarfélaga Austur-Húnavatnssýslu um áframhald á dreifnáminu, en búið er að tryggja fjármagn fyrir fyrsta skólaárið í gegnum sóknaráætlun landhluta.

Dreifnám í A-Hún. hófst í vetur og eru þrettán nemendur í náminu og hefur tekist vel til. Nokkur ávörp voru flutt og eitt tónlistaratriði frá nemanda og skólastjóra Tónlistarskóla A-Hún. Gestir skoðuðu síðan húsnæðið og fengu leiðsögn frá nemendum og umsjónaaðila dreifnámsins, Ásdísi Ýr Arnardóttur.

Þau sem undirrituðu samninginn voru Magnús B. Jónsson, fyrir hönd sveitarfélaganna Austur-Húnavatnssýslu, Ingileif Oddsdóttir skólameistari FNV og Katrín María Andrésdóttir frá SSNV.

Fleiri fréttir