Séra Magnús Magnússon kominn í námsleyfi

Frá og með deginum í dag  1. september fer sr. Magnús Magnússon, sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli, í níu mánaða námsleyfi þ.e. til og með 31. maí 2021. Á þeim tíma mun sr. María Gunnarsdóttir gegna prestsþjónustu í Breiðabólsstaðarprestakalli.

Á facebooksíðu Hvammstangakirkju kemur fram að sr. María hafi starfað undanfarin misseri á fræðsludeild biskupsstofu en var vígð til afleysinga haustið 2019 og var þjónandi prestur í fyrravetur annars vegar í Laufásprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og hins vegar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Magnús skrifar á sína síðu að stefnan væri sett á framhaldsnám í guðfræði, nánar tiltekið meistararitgerð í kirkjusögu undir handleiðslu dr. Hjalta Hugasonar. „Síðar á þessu ári eru tuttugu ár liðin frá prestsvígslu og í tilefni þess er ágætt að stíga út úr prestsþjónustunni um stund og yfir í bókalestur, fræðastörf og akademískt frelsi. Sr. María Gunnarsdóttir mun þjóna prestakallinu í fjarveru minni s.s. segir nánar frá í deildri færslu hér frá Hvammstangakirkju. Bið að blessun fylgi hennar störfum sem og sóknarbörnum mínum í dag og alla daga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir