Setningarávarp á Sæluviku 2019
Kæru Skagfirðingar og aðrir gestir.
Sæluviku Skagafirðinga má líkja við heiðlóuna. Enda er hún er sannkallaður vorboði heimamanna, síðasti vetrardagur er að baki og í kjölfar hans kemur Sæluvika sem skartar fjölbreyttri menningardagskrá víðsvegar um fjörðinn. Sæluvika er lista- og menningarhátíð sem stendur yfir í heila viku og bera heimamenn á borð fyrir gesti og gangandi myndlist, leiklist, tónlist og aðrar menningarlegar kræsingar.
Eins og flest ykkar þekkið er Sæluvika Skagfirðinga ein elsta menningarhátíð landsins og nær saga hennar allt aftur til ársins 1874 þegar svonefndar sýslunefndarvikur hófu göngu sína og hefur Sæluvika þróast út frá því en frá árinu 1995 hefur hátíðin verið fastur liður í samfélagi Skagafjarðar og hefst í lok apríl ár hvert.
Ég ætla ekki að rekja forsögu Sæluviku fyrir ykkur neitt frekar heldur segja ykkur örstutt frá minni upplifun af þessari hátíð sem nýlegum íbúa þessa samfélags en ég flutti norður jólin 2016. Þrátt fyrir að hafa ekki upplifað Sæluviku fyrir þann tíma hafði ég heyrt af þessari margfrægu hátíð Skagfirðinga. Ég er nefnilega ættuð úr Skagafirði og minnist þess að hafa heimsótt fjörðinn góða og heyrt sögur af því hversu mikil hátíð Sæluvika var, hlaðin dans- og söngvaskemmtunum, og að hér áður fyrr hafi verið ball nánast á hverju kvöldi þá vikuna.
Árið 2017, þegar ég svo fyrst kynntist Sæluviku, minnist ég þess að hafa skoðað dagskrána og kom mér á óvart allur sá fjöldi viðburða sem hægt var að sækja á svo stuttum tíma – þvílík dagskrá. Ég ætlaði nú ekki að missa af þessu og sótti nokkra þeirra sjálf, s.s. leiksýninguna ,,Beint í æð“ og kíkti á sýningu í gamla bænum í Glaumbæ.
Sem barn hafði ég margoft heyrt frá afa mínum, sem var fæddur og uppalinn í Skagafirði, að Skagfirðingar væru afskaplega söngelskt fólk, sem var nú alveg hárrétt hjá honum, enda eru þeir nú ekki eingöngu söngelskir heldur einnig miklir listamenn á ýmsum sviðum. Þetta má glöggt sjá í glæsilegri og metnaðarfullri dagskrá sem liggur nú fyrir á Sæluviku 2019 en meðal þeirra viðburða sem boðið verður upp á eru leiksýningar, myndlistasýningar, dansviðburðir og tónleikar - sem munu að sjálfsögðu skipa stórann sess í dagskránni meðal söngelskra Skagafirðinga.
Mikilvægt er að benda á það gildi sem Sæluvika stendur enn fyrir í menningarlífi Skagafjarðar. Í samfélaginu okkar býr hæfileikaríkt fólk sem hefur lagt sitt af mörkum til þess að gera þessa hátíð að veruleika og nú fer fram uppskeruhátíð þessara listamanna með brot af því besta eftir verkefni vetrarins. Er því mikilvægt að heimamenn sæki þennan viðburð til þess að tryggja að Sæluvika verði áframhaldandi liður í okkar samfélagi. Nú er um að mæta á alla þá viðburði sem framundan eru og njóta þessarar frábæru lista- og menningarhátíðar - en með því sýnum við þakklæti okkar, höldum í hefðina og tryggjum áframhaldandi farsæld Sæluviku.
Kæru Skagafirðingar og aðrir gestir, Sæluvika Skagfirðinga 2019 er hér með sett og óska ég ykkur ánægjulegrar skemmtunar.
Sigríður Regína Valdemarsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.