Sex fúlar flyðrur frá Fáskrúðsfirði í net Stólanna

Fáskrúðsfjörður er fallegur bær en þeir Fáskrúðsfirðingar spila engu að síður heimaleikina sína á Reyðarfirði. Það er alveg glatað. MYND: ÓAB
Fáskrúðsfjörður er fallegur bær en þeir Fáskrúðsfirðingar spila engu að síður heimaleikina sína á Reyðarfirði. Það er alveg glatað. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn héldu austur í dag og spiluðu við sprækt lið Leiknis frá Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggðarhöllinni. Eitthvað virðast þessar hallir koma Stólunum úr stuði því líkt og á móti Akranes-Kára á dögunum þá fengu strákarnir rassskell og gáfu andstæðingunum mörk á færibandi. Lokatölur 6-0 og ekki batnaði útlitið á botninum við það.

Lið Leiknis var á toppi deildarinnar þegar Stólarnir mættu austur og hafa verið að spila vel í sumar. Þeir töpuðu engu að síður í síðustu umferð fyrir Þrótti Vogum á meðan Stólarnir lúskruðu á Garðbæingum. Næsti leikur Tindastóls er einmitt við Vogara.

Það tók Leiknismenn bara eina mínútu að gera fyrsta markið og þar var á ferðinni Izaro Abella Sanchez. Sæþór Viðarsson bætti öðru marki við á fimmtu mínútu og staða Tindastóls vægast sagt orðin erfið. Daniel Garcia Blanco bætti við þriðja marki heimamanna á 39. mínútu og staðan því 3-0 í leikhléi. Sem betur fer fengu Stólarnir ekkert mark á sig í hléinu en Mykolas Krasnovskis gerði fjórða mark Leiknis á 58. mínútu, Blanco það fimmta á 66. mínútu og Unnar Hansson átti rothöggið á 87. mínútu.

Arnar Skúli Atlason, annar þjálfara Tindastóls, sagðist því miður ekki taka neitt jákvætt úr leiknum, liðið byrjaði leikinn illa og svo fór þetta versnandi, Stólarnir hafi hreinlega gefið mörk. Tanner, Ísak og Sverrir Hrafn fengu allir að líta gula spjaldið á lokakafla leiksins, spjöld sem Arnari Skúla fannst ekki sanngjörn, og ljóst er að Tanner verður í banni þegar lið Selfoss kemur á Krókinn í lok mánaðarins. Næsti leikur verður á Vogaídýfu-vellinum í Vogum (ekki djók) og hefst hann nk. sunnudag kl. 16:00.

Staða Tindastóls á botni 2. deildar varð bara snúnari í dag og ljóst að það þarf mikið að lagast í leik liðsins ef það á að ná að tryggja sæti sitt í deildinni – en miði er möguleiki. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir