Sextán sýnt í kvöld
Leikhópur FNV frumsýnir í kvöld leikritið Sextán eftir Gísla Rúnar Jónsson í leikstjórn Guðbrands Ægis Ásbjörnsson. Verkið er frábær söngleikur, uppfullur af húmor, dramadrottningum, nördum, hæfilegum skammti af spennu og ekki síst fjörugri og heillandi tónlist.
Aðalpersóna sýningarinnar er Hófí sem er nýbyrjuð í skóla. Hún er í raun frábær stelpa, vinsæl meðal stelpnanna og henni fylgir jafnan heilt vinkvennager. Þó er vanmáttarkenndin alveg að fara með hana og ekki batnar ástandið þegar sextán ára afmælisdagurinn rennur upp. Hún virðist þá vera sú eina í fjölskyldunni sem man eftir þessum mikilvæga áfanga. Málið er að foreldrar og aðrir ættingjar og vinir eru allir með hugann við undirbúning fyrir brúðkaup eldri systur hennar sem á að fara fram daginn eftir.
En dagurinn er ekki úti - og nóttin er löng - og áður en sextán ára afmælisdagur Hófíar er á enda runninn, á margt eftir að fara á annan veg en ætla hefði mátt í fyrstu.
- Næstu sýningar:
- Sunnudaginn 14. nóv. kl. 17:00
- Þriðjudaginn 16. nóv. kl. 20:00
- Miðvikudaginn 17. nóv. kl 20:00