Sigrar jafnt sem ósigrar um helgina
Yngri flokkar Tindastóls í körfubolta spiluðu nokkra leiki um síðustu helgi og uppskáru sigra jafnt sem ósigra, eins og segir í frétt á heimasíðu Tindastóls.
Hjá 9.flokki stúlkna var spiluð tvöföld umferð þar sem að aðeins þrjú lið mættu til leiks. Stúlkurnar úr Tindastól sigruðu Snæfell örugglega í báðum leikjum þeirra liða en töpuðu hins vegar báðum leikjunum á móti Fjölni. „Það var virkilega gaman að sjá stelpurnar spila um helgina þar sem að framfarirnar hafa verið miklar og keppnisskapið hjá þeim og framlag til leikjanna til fyrirmyndar,“ segir í frétt á heimasíðu Tindastóls.
Drengjaflokkur fór fýluferð suður á laugardaginn og tapaði með 20 stigum á móti Haukum en unglingaflokkur sigraði svo aftur á móti Fjölni örugglega á heimavelli með tæpum 30 stigum, 94-65. 10.flokkur drengja fór suður í Rimaskóla og töpuðust allir leikir þeirra.
Næsti leikur Tindastóls er á fimmtudaginn kemur, 16.október kl:19.15, þegar meistaraflokkur karla tekur á móti liði Þórs Þorlákshafnar.