Sigur gegn Akureyringum í æfingaleik

Helgi Viggós í kunnuglegum stellingum. MYND: HJALTI ÁRNA
Helgi Viggós í kunnuglegum stellingum. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls og Þórs frá Akureyri mættust í Síkinu í gær í æfingaleik. Nýr Kani Tindastóls, Shawn Glover, spilaði sínar fyrstu mínútur í Tindastóls-búningnum og sýndi ágæta spretti þó hann hafi verið þungur á köflum, enda ekki búinn að ná mörgum æfingum með sínum nýju félögum. Stólarnir áttu ekki í teljandi vandræðum með lið gestanna sem þó bitu frá sér og þá sérstaklega í öðrum fjórðungi. Lokatölur voru 100-76.

Liðin fóru rólega af stað en um miðjan fyrsta leikhluta náðu Stólarnir fínum kafla og leiddu 29-16 að honum loknum. Heimamenn virtust hafa tínt lyklinum að körfu gestanna í öðrum leikhluta og Þórsarar, með Ivan Aurrecoechea í góðum gír, minnkuðu muninn í fimm stig og staðan 46-41 í hálfleik. Tindastólsmenn voru fljótir að að ná yfirhöndinni í byrjun síðari hálfleiks og staðan 76-60 að loknum þriðja leikhluta og sigldu síðan öruggum sigri í höfn í lokafjórðungnum og þá fengu óreyndari kappar að stíga dansinn.

Jaka Brodnik var frábær í liði Tindastóls og endaði með 30 stig og sjö fráköst. Þeir sem fylgdust með stattinu á KKÍ.is hafa örugglega verið hæstánægðir með framlag hins unga Boga Sigurbjörnssonar en þar var í raun á ferðinni Shawn Glover og hann skilaði 18 stigum á rúmum 20 mínútum. Tomsick gerði 16 stig, Viðar 10 og Pétur 6 en aðrir minna. Antanas var ekki með Stólunum í gærkvöldi. Í liði Þórs var Ivan atkvæðamestur með 27 stig og tíu fráköst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir