Sigursælar skyttur frá Blönduósi
Hið árlega kvennamót í leirdúfuskotfimi "SKYTTAN" var haldið á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur í gær. Skotfélagið Markviss á Blönduósi átti tvo keppendur og sigruðu þær hvor sinn flokk.
Markmið kvennamótsins er að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í þessari skemmtilegu íþrótt. Keppt er í þremur flokkum þ.e. nýliðaflokki og A og B flokk vanra skotkvenna. Alls voru tólf konur sem tóku þátt að þessu sinni, þar af sjö í nýliðaflokk.
Snjólaug sigraði A flokkinn eftir harða baráttu við Dagnýju H.Hinriksdóttur úr SR og Helgu Jóhannsdóttur úr SIH, og Jóna vann nýliðaflokkinn örugglega. Næsta kvennamót mun svo fara fram á Blönduósi og standa vonir til að áhugasamar skotkonur eigi eftir að fjölmenna í Húnavatnssýsluna næsta haust.
Til gamans má geta að fyrirtækið Sportvík ehf. á Blönduósi gaf tvo farandbikara fyrir mótið þannig að báðir bikararnir koma aftur á heimaslóðir.
Fréttatilkynning