Síkið – er staðurinn!

Oft hefur stemningin í Síkinu verið góð en kannski aldrei jafn geggjuð og nú. Þessa mynd tók Hjalti Árna í úrslitakeppninni vorið 2018 eftir risatroðslu Chris Davenports í spennutrylli gegn liði ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA
Oft hefur stemningin í Síkinu verið góð en kannski aldrei jafn geggjuð og nú. Þessa mynd tók Hjalti Árna í úrslitakeppninni vorið 2018 eftir risatroðslu Chris Davenports í spennutrylli gegn liði ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA

GREIN ÚR FEYKI FRÁ ÞVÍ FYRIR JÓLIIN 2018

ÞAÐ ER LEIKUR Í KVÖLD! Síkið er heimavöllur Tindastóls í körfunni. Andstæðingar Stólanna segja erfitt – en gaman – að mæta í Síkið, enda vanalega vel mætt á pallana og þegar mikið er undir eru svalirnar umhverfis völlinn þétt staðnar. Stólarnir þykja erfiðir heim að sækja og stemningin klikkar sjaldnast. Það má teljast fífldjarft að skella á einhverjum viðburði eða fundi á Sauðárkróki á sama tíma og Stólarnir spila í Síkinu. Ekki einu sinni Framsóknarfélagið mundi reyna það þó mikið lægi við.

Íþróttahúsið á Sauðárkróki var tekið í notkun árið 1985 en flestum þykir orðið sjálfsagt að tala um það sem Síkið, þó kannski ekki öllum þyki mikill glæsibragur yfir nafninu.

En af hverju Síkið?

Þórhallur Ásmundsson, fyrrum ritstjóri Feykis, kom fyrstur fram með þessa nafngift, að öllum líkindum fljótlega eftir að lið Tindastóls komst upp í efstu deild vorið 1988. Körfuboltaáhugi hafði lengi verið landlægur í Skagafirði og ekki minnkaði áhuginn þegar menn voru komnir í löglegt hús og stefnan fljótlega sett á að komast í efstu deild.

Stólarnir, þjálfaðir af Kára Mar sem spilaði líka, fengu haustið 1988 til sín einn öflugasta leikmann Íslands á þessum tíma, Njarðvíkinginn Val Ingimundarson, en annars var byggt á efnilegum heimamönnum eins og Jolla Sverris og Sverri bróður hans, Bjössa Sigtryggs, Halla Freyju, Gústa Kára og fleiri köppum. Stemningin í húsinu varð strax ógurleg en það var þá helmingi minna en það er í dag. Fyrst voru áhorfendur eingöngu á svölunum góðu allt í kringum völlinn, líkt og nú, en síðan bættist við stúka norðanmegin í húsinu (nú er stúkan vestanmegin). Þeir sem stóðu fyrir aftan körfuspjöldin voru í minna en metersfjarlægð frá körfunum og því ofan í leikmönnum liðanna. Sæmilega handleggjalangir áhorfendur gátu nánast varið skot úr hornunum – nálægðin var hreinlega geggjuð.

Þórhallur hafði aðeins skrifað um íþróttir í Feyki en tók að sér að stýra blaðinu um mitt sumar 1988, eða á svipuðum tíma og Stólarnir hófu leik í efstu deild. Hann segist hafa farið að velta fyrir sér að gaman væri að nefna íþróttahúsið á Sauðárkróki einhverju grípandi og skemmtilegu nafni. Í raun var aðeins eitt hús á landinu, þar sem körfubolti var iðkaður af alefli, sem bjó að grípandi og ógnvænlegu nafni en það var að sjálfsögðu Ljónagryfjan í Njarðvík. Þangað fóru menn vart nema skjálfandi á beinunum, enda var stemningin mikil og Njarðvíkingar nær ósigrandi, með frábært lið ár eftir ár.

Að sögn Þórhalls var hann á báðum áttum varðandi það að finna nafn á húsið, kannski var hálf lélegt að elta Njarðvíkingana í þessum efnum og ljóst að nafnið þurfti að hitta í mark ef það átti að festast. Þórhalli datt þó í hug að þar sem lið Tindastóls væri frá Sauðárkróki og leikmennirnar flestir Króksarar, þá væri ekki óeðlilegt að tengja þá við krókódíla og íþróttahúsið því við krókódílasíki – eða í stuttu og grípandi máli; Síkið.

Og með áhorfendur allt í kring og leikmennina svamlandi til sigurs í suðupottinum var völlurinn nánast eins og krókódílasíki. Nafngiftin smellpassaði. Þannig að Þórhallur fór að nefna heimavöll Stólanna sem Síkið í skrifum sínum um leiki liðsins og ekki leið á löngu þar til þetta var orðið pikkfast í huga fólks og nú má segja að húsið sé ekki þekkt undir neinu öðru nafni.

Ekki bara áfram Tindastóll

Margt ágætt hefur að sjálfsögðu átt sér stað í Síkinu og ekki bara frábær afrek inni á vellinum. Stuðningsmenn Tindastóls hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að láta heyra í sér og dómarar ekki alltaf átt upp á pollborðið. Þórhallur mundi eftir því að geðprúður áhorfandi á svölunum ofan við völlinn hafi orðið svo æstur að tyggjóið spýttist – sennilega alveg óvart – út úr honum og niður í Síkið í átt að öðrum dómara leiksins. Eftir því var tekið að dómgæslan skánaði mikið í kjölfarið.

Nú þykir ekki lengur fínt að atast í dómurum á leikjum og skilningur á erfiðu starfi þeirra kannski aukist í áranna rás. Þrátt fyrir þessa tyggjósögu þá þótti það nánast sannað að skætingur í garð dómara kæmi heimaliðinu síst til góða. Stefán Jónsson, fyrrum formaður Kkd. Tindastóls, átti stóran þátt í að setja á fót öfluga stuðningsmannasveit Tindastóls, Grettismenn, í kjölfar þess að hann varð formaður. Ein regla Grettismanna var skýr; neikvæðni í garð dómara var stranglega bönnuð á leikjum Tindastóls og ef einhver stuðningsmanna liðsins fór út af sporinu í þeim efnum, þá voru Grettismenn fljótir að taka við sér og sungu viðkomandi í kaf með jákvæðum boðskap og bumbuslætti.

Að sögn Rúnars Birgis Gíslasonar, Skagfirðings, körfuboltaspekings og dómara, þá er hans tilfinning að dómarar hafi núorðið gaman að því að dæma í Síkinu. „Menn eru ánægðir með alla umgjörð á Króknum og fjör í stúkunni. Það er gaman að dæma ef það eru læti og stemming.“ Rúnar segir að það hafi verið annað í gamla Síkinu „...þegar þetta var gryfja.“

Söngur Grettismanna, Fallegur dómari, sem hljómar iðulega í kjölfar jákvæðra dóma til handa Tindastóli, hefur örugglega verið á toppnum yfir uppáhaldslög dómara síðustu tímabil og oftar en ekki kallað fram bros á varir þessara oft alvarlegu flautuleikara.

Stækkun Síkisins umdeild

Fyrir stækkun Síkisins þótti stemningin í húsinu hrikaleg – í jákvæðustu merkingu þess orðs. Fólk kom kófsveitt heim af leikjum, enda nándin algjör, bæði við leikinn og aðra stuðningsmenn. Fæstir gátu haldið sig fjarri og jafnvel hjartveikustu menn mættu bara með sprengitöflurnar í vasanum – enda margsannað að það er miklu erfiðara að sitja uppspenntur heima heldur en að mæta í Síkið og losa um mesta þrýstinginn með öllum hinum. Hermt er að yfir 800 manns (sennilega mjög óábyrg tala) hafi verið á leik Tindastóls og Hauka, þáverandi Íslandsmeistara, í þríframlengdum leik í Síkinu haustið 1988 og þá hafi verið staðinn þrefaldur hringur á svölunum.

Kári Mar sem þjálfaði meistaraflokk karla í níu ár og meistaraflokk kvenna í fjögur, auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari karlaliðsins í tólf ár, segir þessa hönnun hússins fyrir stækkun þess, nálægðina og svalirnar allt um kring, hafa myndað gryfjustemningu sem var einstök.

Þegar húsið var stækkað um helming þá fannst mörgum stemningin týnast í öllum þessu tómi. Menn dóu þó sumir ekki ráðalausir. Til að fylla upp í tómið tóku til að mynda hinir eitilhörðu stuðningsmenn og fóstbræður, Guðbrandur Ægir og Jón Þór, upp á því að útbúa sér sérstök klappsett úr spýtukubbum sem voru síðan reyrðir yfir handarbökin á þeim og þegar þeir klöppuðu þá mynduðust ógurlegir skellir í salnum. Þetta var auðvitað hugsað til þess að auka á lætin og hávaðann en varð helst til þess að þeir sem stóðu í nágrenni við þá voru komnir með dúndrandi höfuðverk löngu fyrir hálfleik. Sem betur fer sló þessi búnaður ekki í gegn og þeir hættu að mæta með hann á leiki.

Já, stækkun Síkisins breytti sannarlega stemningunni en nú eru jafnvel (og þó einkum) elstu menn búnir að jafna sig á þeim ósköpum og leikirnir í úrslitakeppninni síðastliðið vor [2018] voru hreinlega heilmikil upplifun – mannfjöldinn magnaður og stemningin hreinlega geggjuð.

Allt fyrir sigurinn

Ýmislegt hefur verið reynt til að taka andstæðinginn á taugum í Síkinu. Hinir miklu íþróttamenn í Molduxum hafa sérhæft sig í því sporti og stilla sér vanalega upp á sínum stað á svölunum – vanalega beint fyrir ofan varamannabekk gestaliðsins. Í hita leiksins getur reynst erfitt að sitja undir vinsamlegum ábendingum mis hugljúfra heimamanna og hermir sagan að oftar en einu sinni hafi þjálfari eins Suðurnesjaliðsins boðist til að laga andlitið á einhverjum Molduxanum eftir orð að ofan. Að sjálfsögðu varð lítið úr hótununum, en að fá smá athygli á þennan hátt, og setja andstæðinginn aðeins á hliðina, jafnast alveg á við gott hollíhú. Þetta er að sjálfsögðu allt partur af leiknum og gamninu.

Grettismenn eiga sín lög sem eru kannski fæst uppörvandi fyrir mótherjana og stundum seilast menn örlítið niður fyrir beltisstað. Þeirra framlag er hins vegar frábært og það er ólíkt skemmtilegra á leikjum þegar Grettismenn eru með á nótunum.

Að fara úr húsinu

Stuðningsmenn Tindastóls og andstæðinga hafa ekki öllum stundum verið til sóma og eins og gefur að skilja mæðir stundum talsvert á húsvörðum þegar miklir hasarleikir eru í gangi. Kári Mar segir eitt skondnasta atvik sem hann muni eftir úr Síkinu hafa gerst á Derby-leik milli Tindastóls og Þórs frá Akureyri en þá varð Bjössi húsvörður, Sigurbjörn Árnason, að grípa til þess örþrifaráðs að hendum fullum Þórsara út úr húsi. „Það var mjög skemmtileg rimma,“ rifjar Kári upp kíminn.

Sumir stuðningsmenn fara þó fram úr sjálfum sér allsgáðir. Ein langsóttasta og sérstakasta tilraun til að setja andstæðingana út af laginu var gerð skömmu áður en Síkið var stækkað. Sem fyrr segir stóðu sumir áhorfendur beint aftan við glær körfuspjöldin, ekki í metersfjarlægð frá körfunum. Einum dyggum stuðningsmanni datt í hug að láta útbúa fyrir sig stærðarinnar plaggat í ljósritunarþjónustu á leikdegi. Hann mætti síðan galvaskur í Síkið og þegar andstæðingarnir fengu vítaskot þá dró hann upp plaggatið fyrir aftan körfuspjaldið. Plaggatið skartaði nöktum kvenmanni og daman blasti við vítaskyttunum þegar þær tóku miðið og vonin var sú að trufla einbeitingu vítaskyttunnar Adam var hins vegar ekki lengi í Paradís því í þriðja skiptið sem kappinn reyndi þetta trikk, sem hafði reyndar ekki gert mikið annað en að kæta skytturnar og áhorfendur, þá flautaði Jón Otti dómari hátt og snjallt í flautuna og vísaði kappanum út úr húsi og plaggatinu líka.

Bróðir þessa manns, sem er taktfastur með eindæmum, hafði það fyrir venju að yfirgefa Síkið þremur fjórum mínútum fyrir leikslok ef leikirnir voru spennandi, fullviss um að öðruvísi gætu Stólarnir ekki unnið leikinn. Það væri algjört lykilatriði að hann færi. Þannig að hann bauð félögum sínum Opal og sagðist síðan vera farinn.

Fleiri ágætir stuðningsmenn hafa haft álíka hjátrú. Stefán Jónsson, fyrrverandi formaður Kkd. Tindastóls, sagði aðspurður við Feyki: „Ég var með þá reglu að ef við vorum undir í fjórða leikhluta þá fór ég út. Stóð fyrir utan og bara hlustaði á áhorfendur. Þetta virkaði nánast alltaf því um leið og ég var kominn út byrjuðu yfirleitt fagnaðarlæti sem þýddi að það var verið að snúa leiknum okkur í hag. Vil samt taka það fram að fagnaðarlætin byrjuðu ekki fyrr en ég var kominn út, “ segir Stebbi léttur. Já, við skulum vona að lætin hafi ekki tengst því að formaðurinn fór út úr húsinu.

Það að yfirgefa Síkið verður að teljast frekar óheppileg hjátrú því lokamínúturnar eru oft skemmtilegustu mínútur leikjanna. Og það er líka eins gott að allir stuðningsmenn Tindastóls séu ekki með þessa sömu dellu og yfirgefi liðið sitt á ögurstundu – þá væri Síkið sannarlega ekki svipur hjá sjón!

- - - - - 

Greinin birtist í 46. tölublaði Feykis árið 2018 ásamt stuttum viðtölum við Brilla, Króksa og upprifjun á einum eftirminnilegasta leik sem spilaður hefur verið í Síkinu – þríframlengdum leik við Íslandsmeistara Hauka sem endaði 134-141. Hægt er að kíkja á þetta á Tímarit.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir