Símamótið 2020

Kampakátar Stólastúlkur að móti loknu. MYNDIR AÐSENDAR
Kampakátar Stólastúlkur að móti loknu. MYNDIR AÐSENDAR

Um helgina fór Símamótið fram í Smáranum í Kópavogi. Má segja að það sé Íslandsmót stúlkna í fótbolta í 5., 6. og 7. flokki þar sem þetta er stærsta fótboltamót landsins. Keppendur voru um 2.400 í 370 liðum og hafa aldrei verið fleiri. Miklar breytingar voru gerðar á mótahaldi vegna COVID og í raun má segja að um þrjú aðskilin mót hafi verið að ræða. Flokkarnir voru hver á sér svæði og lítill sem enginn samgangur á milli þeirra svæða. Fjöldi áhorfenda var takmarkaður og aðgengi fullorðinna annarra en þjálfara og liðsstjóra var enginn inn á aðra viðburði mótsins. Þótti mótið takast vel og var ekki annað að sjá en að stúlkurnar fengju að njóta sín á vellinum.

Að venju tóku stúlkur af Norðurlandi vestra þátt í mótinu. Keppendur komu frá Tindastóli á Sauðárkróki og sameinuðu liði Kormáks/Hvatar/Fram frá Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd. Tindastóli sendi fjögur lið, þrjú í 6. flokki og eitt í 5. flokki og Kormákur/Hvöt/Fram sendi tvö lið í 5. flokki. Allar stóðu stelpurnar sig með prýði og snýst mót sem þetta aðallega um að hafa gaman að og þroska íþróttaandann í keppendum.

Gaman er þó frá því að segja að 6. flokkur Tindastóls gerði sér lítið fyrir og náðu öll liðin verðlaunasæti í sínum riðli, 2. og 3. sæti. Bryndís Rut Haraldsdóttir, þjálfari yngri flokka kvenna hjá Tindastóls, segir það ótrúlega gaman að sækja svona stór mót. Félagið eigi margar flottar og góðar fótboltastelpur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt fyrir þær að fá að keppa á svona stóru móti. Það er alltaf sérstök stemning sem skapast í kringum þetta allt saman og gaman að sjá hvað foreldrar standa vel saman.

Allar stóðu stelpurnar sig virkilega vel og gaman að sjá hvernig leikurinn hefur þroskast hjá þeim í gegnum tíðina. Þó svo að allar kæmu ekki með verðlaun heim fóru allar glaðar af velli og hlakka til næstu móta. Í 5. flokki þurfti hlutkesti til hjá Tindastóli sem þær því miður töpuðu og misstu því af úrslitaleik og enduðu að lokum í 4. sæti í sínum riðli. Sameinaða lið Kormákar/Hvatar/Fram mætti með tvö lið í 5. flokki á mótið. Var flokknum skipt í 25 riðla eftir styrkleika og endaði lið 1 í styrkleika þrjú og lið 2 í styrkleika 16 á lokadegi mótsins, sem er mjög góður árangur.

Flestir af Símamótinu frá Tindastóli mættu svo á leik Tindastóls og KR í Bikarkeppninni á laugardagskvöldinu og fannst stelpunum frábært að fá að fylgjast með þjálfaranum sínum og hinum stelpunum berjast á móti KR sem er í toppbaráttu í deildinni. Engu skipti þó KR hafi unnið leikinn, þær voru yfir sig hrifnar að fá að hvetja fyrirmyndina sína í leiknum. Bryndís segist stolt af sínum stelpum og hlakkar til að fylgjast með þeim í framtíðinni. Segir Bryndís jafnframt að það hafi verið frábært að sjá hversu margir Skagfirðingar mættu á leikinn og voru fylgjendur Tindastóls mun fleiri en fylgjendur KR.

Feykir hefur safnað saman myndum af mótinu og er þær hægt að sjá hér að neðan. Við bætum fleiri myndum glöð í albúmið ef þið sendið okkur þær á bladamadur@feykir.is

Endilega klikkið á myndirnar til að sjá þær í betri gæðum.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir