Simmons fékk Ljónagryfjuna lánaða í fimm mínútur

Sinisa Bilic átti flottan leik með Stólunum og var stigahæstur með 21. MYND: HJALTI ÁRNA
Sinisa Bilic átti flottan leik með Stólunum og var stigahæstur með 21. MYND: HJALTI ÁRNA

Önnur umferð Dominos-deildar karla hófst í gærkvöldi og aðalleikur umferðarinnar var í Njarðvík þar sem heimamenn tóku á móti liði Tindastóls sem hafði ýmislegt að sanna eftir hálf dapra frammistöðu í fyrsta leik. Stólarnir mættu vel stemmdir til leiks og pressuðu lið heimamanna villt og galið með góðum árangri. Strákarnir hirtu stigin sem í boði voru og fóru sáttir og sælir heim eftir 75-83 sigur í Ljónagryfjunni.

Fyrstu tvær mínúturnar gekk illa hjá gestunum og lið Njarðvíkur, með öðlinginn hann Loga Gunnars í gírnum, gengu á lagið og komust í 7-0. Þá hófst pressa Tindastóls fyrir alvöru og mikill ákafi í varnarleiknum þannig að Njarðvíkingar fundu enga leið að körfunni. Stólarnir náðu 15-2 kafla þar sem Sinisa Bilic fór hamförum í sókninni. Hann átti síðan flautuþrist frá miðjum velli sem sá til þess að Stólarnir voru 13-20 yfir eftir fyrsta leikhluta. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en Njarðvíkingarnir þó heldur grimmari. Jasmin Perkovic skellti í nokkra þrista sem sáu til þess að Stólarnir héldu sjó en Logi og Kristinn Pálsson voru góðir í liði Njarðvíkinga sem náðu yfirhöndinni rétt fyrir hlé og leiddu í hálfleik, 40-38.

Baldur Þór sendi sína menn einbeitta og baráttuglaða til leiks í síðari hálfleik en Njarðvíkingar náðu að hanga í að jafna leikinn ítrekað. Gerel Simmons hafði átt frekar dapurt kvöld í liði Tindastóls, fengið á sig klaufalegar villur og nánast verið jarðaður undir körfu Njarðvíkinga í nokkur skipti. Hann virtist loks fá nóg af þessari vitleysu þegar þrjár mínútur lifðu af þriðja leikhluta, setti í gamla góða túrbóið og tók Ljónagryfjuna að láni næstu fimm mínútur leiksins. Það var líkast því að Njarðvíkingar væru á staurfótum þegar hann hóf að raða niður körfum í öllum regnbogans litum. Tíu stigum munaði, 57-67, þegar fjórði leikhluti hófst en 17 stigum tveimur mínútum síðar þegar Simmons fékk aðeins að hvíla sig á bekknum. 

Þá hófst kafli þar sem Njarðvíkingar hófu að saxa á forskot Tindastóls en það gerðist hægt því enn spiluðu Stólarnir góða vörn. Nú gekk gestunum hinsvegar illa að klára færin og sennilega hafa einhverjir stuðningsmenn verið orðnir nett taugaveiklaðir þegar Logi fékk að láta ljós sitt skína eftir (h)eldri manna hvíld á bekknum. Skot Loga rötuðu hinsvegar ekki niður á lokamínútunum í gærkvöldi og það reyndist því nokkuð þægilegt fyrir Stólana að sigla heim sigrinum. Njarðvíkingar náðu muninum mest niður í fimm stig þegar 40 sekúndur voru eftir en nær komust þeir ekki.

Lið Tindastóls sýndi mun betri leik í gær en gegn Keflvíkingum í fyrstu umferðinni. Ákafinn í vörninni var til fyrirmyndar sem og dugnaður leikmanna sem vörðust sem lið. Það er svo líka alltaf vænlegt til árangurs þegar skotin rata niður. Enn vantaði Pétur í lið Tindastóls en vonir standa til að hann verði með fyrr en síðar. Bilic var stigahæstur í liði Tindastóls með 21 stig, Brodnik endaði með 19 og Simmons 17. Þá átti Perkovic góðan leik og skilaði 13 stigum og Hannes sprækur með sex stig ef minnið svíkur ekki. Það er eitthvað lítið að marka tölfræðisíðu KKÍ frá þessum leik en bókhaldið brást í Njarðvík og þessar tölur því allar með fyrirvara. Logi Gunn var með 20 stig fyrir heimamenn, Mario Matasovic setti 14 og Kristinn Páls 13.

Næsti leikur Tindastóls er í Síkinu næstkomandi fimmtudag en þá koma Stjörnumenn í heimsókn. Garðbæingar hafa unnið fyrstu tvo leikina og það verður því hart barist. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir