Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi

Hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verða í Hofi þann 29. ágúst. Þetta er upphaf 18. starfsárs hljómsveitarinnar og stór tímamót í sögu hennar þar sem hún er nú að fá fastan samastað í Hofi hinu nýja menningarhúsi á Akureyri. Einleikari á tónleikunum er hinn frábæri píanóleikari Víkingur Heiðar Ólafsson og flytur hann píanókonsert eftir Edvard Grieg. Víkingur lauk námi frá  Juilliard skólann í New York vorið 2008 hefur síðan þá fengist við margvísleg verkefni í tónlist, ferðast sem einleikari og kammermúsíkant, umritað íslensk sönglög fyrir einleikspíanó, haldið meistaranámskeið og komið víða fram. Meðal hljómsveita sem Víkingur hefur leikið einleik með eru Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Juilliard skólans og Fílharmóníusveitin í Turku. Víkingur hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn, m.a. tvívegis Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins (2006) og bjartasta vonin (2004). Það er Sinfóníuhljómsveitinni því mikið ánægjuefni að fá Víking sem einleikara með hljómsveitinni á þessum merku tímamótum, fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar í Hofi.

Á tónleikunum verður einnig frumflutt tónverk eftir Hafliða Hallgrímsson tónskáld sem samið er sérstaklega í tilefni opnunarinnar Hofs. Þetta er hátíðarforleikur sem hann nefnir HYMNOS op. 45. Hafliði Hallgrímsson er fæddur á Akureyri og hóf þar sitt tónlistarnám. Hann er búsettur í Skotlandi og hefur helgað sig tónsmíðum og hlotið fyrir þær margvíslegar viðurkenningar, meðal annar hlaut hann Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir Poemi, konsert fyrir fiðlu og strengjasveit. Hafliði er staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 2008-2011.

Tónleikunum lýkur síðan á Sinfóníu nr. 9 „Frá Nýja heiminum “ eftir tékkneska tónskáldið A. Dvorák. Dvorák bjó um skeið í New York  og var Nýja-heims sinfónían var samin og frumflutt þar. Hún er sögð vera tjáninghans á því hvernig Ameríka orkaði á hann en um leið tjáir sinfónían söknuð hans eftir föðurlandinu.

Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson. Uppselt er á tónleikana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir