Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga skuli virtur

Frá Skagaströnd. Mynd:FE
Frá Skagaströnd. Mynd:FE

Sveitarstjórn Skagastrandar ræddi á fundi sínum í gær um fyrirhugaða lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga í landinu. Hvetur sveitarstjórn Alþingi til þess að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og íbúa landsins og hafna með öllu tillögum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga. Telur sveitarstjórn að tillagan gangi þvert gegn vilja mikils meirihluta þeirra sveitarfélaga sem lögþvinguninni er ætlað að ná til en sé engu að síður kynnt sem vilji sveitarstjórnarstigsins í heild.

Í bókun sveitarstjórnar segir:

„Á nýafstöðnu aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga beittu stærri sveitarfélög aflsmunum með fjölda þingfulltrúa til þess að samþykkja lögþvingaðar sameiningar. Ljóst er að 1000 íbúa lágmark sem gert er að viðmiði í þingsályktunartillögu um málefni sveitarfélaga var einungis valið til þess að tryggja tillögunni brautargengi þar sem hún snerti nægjanlega fáa með beinum hætti. Samþykkt þingsins var síðan blygðunarlaust kynnt sem vilji sveitarstjórnarstigsins í heild þó hún gangi þvert gegn vilja mikils meirihluta þeirra sveitarfélaga sem lögþvingunin ætti að ná til. Enginn hagfræðingur, viðskiptafræðingur eða fjármálaverkfræðingur er þess umkominn að skera úr um hver sé hagkvæmasta stærð sveitarfélaga. Íbúarnir eiga að ráða.
Sveitarstjórn fordæmir jafnframt vinnubrögð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessu máli. Sambandið á að vera málsvari sveitarfélaga skv. 2. grein samþykkta þess. Stjórn sambandsins hefur farið þvert gegn vilja og hagsmunum fjölmargra minni sveitarfélaga, hunsað þeirra sjónarmið og röksemdafærslu í aðdraganda tillögunnar og er að óbreyttu ekki lengur hægt að líta á hana sem málsvara allra sveitarfélaga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir