Sjókvíaeldi – Náttúruógn eða vistvæn matvælaframleiðsla

Sjókvíar í Arnarfirði. Mynd: arnarlax.is
Sjókvíar í Arnarfirði. Mynd: arnarlax.is

Mikil umræða skapaðist á dögunum í kjölfar þess að allir landsliðsmenn íslenska kokkalandsliðsins drógu sig út úr liðinu eftir að Klúbbur matreiðslumanna hafði samið við Arnarlax um að fyrirtækið yrði bakhjarl liðsins en samningur þess efnis var undirritaður í Hörpu að viðstöddu fjölmenni. Með aðgerðum sínum vildu landliðskokkarnir mótmæla þeirri ákvörðun þar sem Arnarlax framleiðir lax í opnu sjókvíaeldi.

Garðar Kári Garðarsson, einn landsliðsmanna skrifaði á Facebooksíðu sína, og birt var í fjölmiðlum, að slíkir framleiðsluhættir væru ógn við villta lax- og silungastofna og hafa margvísleg neikvæð umhverfisáhrif á lífríki Íslands. „Ég nota eingöngu afurðir sem framleiddar eru á sjálfbæran hátt og í sátt við náttúruna og get ekki tekið þátt í því að kynna, fyrir hönd Íslands, vörur sem framleiddar eru með þessum hætti. Ég hef því ákveðið að draga mig út úr kokkalandsliðinu að svo stöddu,“ skrifaði Garðar Kári. 

Frá undirritun styrktarsamnings Arnarlax við Klúbb matreiðslumeistara sem fram fór í Hörpu. Mynd af FB-síðu Arnarlax.

Um svipað leyti voru fluttar fréttir af því að eldislax hafi veiðst í Vatnsdalsá í Austur-Húnavatnssýslu og sagði Björn K. Rúnarsson, leigutaki og staðarhaldari í Vatnsdalsá, í samtali við Mbl.is að þetta væri hættulegt fyrir íslenska náttúru, „eiginlega bara hryðjuverk“. „Það er búið að sanna sig um allan heim að alls staðar þar sem fiskeldi er þá hrynja laxastofnar niður. Það hefur bara sýnt sig,“ sagði Björn og lýsti yfir áhyggjum af því að fleiri eldislaxar væru á ferðinni. Hann segir lítið annað hægt að gera en að fylgjast með því hvort fleiri slíkir fiskar veiðist í ánni. Þá hafa verið sagðar fréttir af meintri mengun sjókvíaeldis víða um heim og talið að Arnarfjörður yrði ekki undanskilinn með skelfilegum afleiðingum. 

Samkvæmt ofansögðu má ætla að stórhætta steðji að íslenskri náttúru bæði hvað varðar mengun í ám og hafi og ekki síst í vistkerfi íslenska laxastofnsins.

Ólafur Sigurgeirsson lektor í fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum

Feykir hafði samband við Ólaf Sigurgeirsson, lektor í fiskeldis- og fiskalíffræðideild Hólaskóla og forvitnaðist um hans álit á aðgerðum landsliðsmannanna og hvort hann teldi að sjókvíaeldi Arnarlax sé hættulegt íslenskri náttúru með yfirvofandi hruni íslenska laxastofnsins.

„Já, þetta er sérkennilegt upphlaup kokkalandsliðsins og stenst eiginlega ekki neina skoðun. Það er ljóst að öll matvælaframleiðsla hefur umhverfisáhrif, sérstaklega dýrapróteinframleiðslan, með beinum og óbeinum hætti. Nærtækast er að opna augun og horfa í kringum okkur á landið sem við lifum í. Ef kokkaupphlaupið hefur einhverja merkingu hjá þeim sjálfum hljóta þau að þurfa að skoða vistspor og umhverfisáhrif við framleiðslu alls þess hráefnis, innlends og erlends, sem þau ætla sér að nota. Það gildir auðvitað ekki aðeins um kokkalandslið heldur okkur öll. Um þetta er vaxandi vitund víðast, einkum hjá ungu fólki, og hefur áhrif á neysluvenjur þess. Þörfin fyrir þeirri hugsun er staðfest í ótal skýrslum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og tengdum stofnunum sem fjalla um umhverfismál. Í því ljósi hefur verið hvatt til aukins fiskelds um heim allan. Það er sú aðferð dýrapróteinframleiðslu sem hefur vaxið hraðast undanfarna áratugi og nauðsyn að svo verði áfram. Við verðum einfaldlega að framleiða meira í sjónum, afli frá veiðum hefur ekki vaxið í áratugi“ segir Ólafur og útskýrir hvað þessi formáli komi spurningum blaðamanns við.

„Tilfellið er að laxeldi í kvíum er ein umhverfisvænsta dýrapróteinframleiðsla sem við þekkjum og skilur eftir sig einna minnst vistspor. Gagnrýnendur kvíaeldis á laxi hvetja til að framleiðslan verði flutt á land. Það er reyndar að gerast að hluta, á þann hátt að fiskurinn er alinn stærri á landi áður en hann fer í kvíarnar. Uppbygging fiskeldis á landi er hinsvegar mjög kostnaðarsöm í samanburði við kvíaeldið og hefur einnig  umhverfisáhrif og skilur eftir sig vistspor eins og annað. Orkuþörfin í landeldisstöð með gegnumrennsli hefur verið metin 5-8x meiri en í kvíaeldi fyrir hvert tonn framleitt og 10-14x meiri í endurnýtingarstöðvum og þetta er örugglega varlega áætlað. Hvaða fallvötn eigum við t.d. að virkja til að framleiða orku fyrir umfangsmikið laxeldi á landi?“  spyr Ólafur.

Eitt hrogn af hverjum þúsund hafa það af
Hann segir að það muni alltaf gerast að fiskur sleppi úr kvíum út í náttúruna þó mjög hafi dregið úr slíkum uppákomum síðustu ár, m.a. vegna traustari búnaðar og vandaðri verkferla.  En er það ekki ógn við villta íslenska laxastofna?

Tafla yfir samanburðartölur í dýrapróteinframleiðslunni.

„Því getur auðvitað enginn svarað en ég tel að ógnin sé lítil og get fært rök fyrir því. Sá norski laxastofn sem notaður er hér í eldi hefur þegar verið kynbættur í tólf kynslóðir. Kynbæturnar hafa einkum verið með vali fyrir auknum vaxtarhraða en gegn ótímabærum kynþroska. Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru. Lífsmöguleikarnir í náttúrunni velta á hversu lengi fiskurinn hefur verið við eldisaðstæður. Þannig eru mestar líkur á að nýútsett gönguseiði (50-100g) sem sleppur og syndir til hafs geti lifað af, nái að verða kynþroska og gangi upp í ár til að hrygna. Lífslíkur stærri fiska sem sleppa eru hverfandi litlar. Norskar reynslutölur sýna að sífellt færri eldislaxar ganga upp í árnar, sem eru skýr merki þess hve mikið húsdýr eldislaxinn er orðinn. Gangi kynþroska eldislax upp í á sýna niðurstöður að æxlunarárangur hans er mjög skertur, 1-3% hjá hængum og um 30% hjá hrygnum. Takist fiskinum að hrygna sýna niðurstöður einnig að afkvæmi eldislaxa og blendinga eldislaxa og villtra hafa mjög skerta afkomumöguleika í náttúrunni. Náttúruvalið lemur látlaust á og er gríðarleg þvottavél. Hjá villtum fiski nær aðeins eitt hrogn af hverjum þúsund að ljúka lífsferlinum, verða að fiski sem hrygnir.“ Ólafur segir að því séu hverfandi líkur á erfðablöndun eða ef hún verður að það hafi einhver sérstök áhrif á villta laxastofna eftir því sem hann fær séð. 

Ólafur bendir á að ný rannsókn, sem reynir að meta áhrif erfðablöndunar, komist að þeirri niðurstöðu að þó hlutfall eldislax í á væri 5-10% af heildar klakfiskafjölda hefði það vart mælanleg áhrif á erfðasamsetningu stofnsins og ef einhver eru þau afturkræf.

„Við skulum hafa í huga að norskur eldislax og villtur íslenskur lax er sama tegundin en með ólíka samsetningu erfðasamsæta sem henta mis vel í villtri náttúru. Að villtir laxastofnar muni hrynja eða hafi hrunið vegna innblöndunar við eldisfisk er ekki rétt. Hrun laxastofna í N-Atlantshafi hófst áður en laxeldi var orðið svo nokkru nam, og varð sérstaklega mikið um miðjan 9. áratuginn. Hrunið hefur einnig orðið mest í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er. Náttúrulegar breytingar í hafi auk margskonar athafna manna og afleiðingar þeirra, svo sem framræsla lands, stíflugerð, súrt regn og önnur mengun eiga sinn þátt í því. Villti laxinn stendur einna sterkast í Noregi. Þar, og reyndar víðar, eru urriðastofnar einnig aftur á uppleið, þrátt fyrir að Norðmenn framleiði um 1,3 milljónir tonna af laxi í kvíum. Menn þurfa því að leita betri skýringa á sveiflum eða hnignun laxa í villtri náttúru.“

Hann segir að þróun kvíaeldisins hjá Arnarlaxi og raunar hvarvetna í Atlantshafi sé í þá átt að setja fiskinn stærri í kvíarnar og eru Færeyingar komnir einna lengst í þeim efnum og reynslan góð að mati Ólafs.

„Tilgangurinn er að stytta framleiðslutímann í sjó og draga úr framleiðsluáhættu í kvíaeldinu. Þessi aðgerð leiðir einnig til þess að hverfandi líkur eru á að fiskur sem sleppur komist af í villtri náttúru. Auðvitað mun einn og einn eldislax ganga upp í ár,- jafnvel geldhrygnur eins og sagt var að hafi veiðst í Vatnsdalsá, sem er reyndar afar óvenjulegt að geldur fiskur geri. Villta laxinum stafar hinsvegar örugglega meiri ógn af öðru en innblöndun við eldislax virðist mér. Við þurfum hins vegar að vanda okkur í fiskeldinu, setja skynsamlegar reglur út frá raunverulegri þekkingu og reynslu og fara eftir þeim.“

Að mati Ólafs eiga Íslendingar mikil ónýtt tækifæri í fiskeldi og kvíaeldi á laxi sé eitt þeirra. „Engum dylst hvað núverandi laxeldi hefur orðið mikil lyftistöng fyrir byggðirnar þar sem það fer fram. Það skyldi nú bara vanta í íslenskt samfélag að við berðumst gegn ó-ríkisstyrktri, afkastamikilli, hollri og vistvænni matvælaframleiðslu sem fram fer í hinum dreifðu byggðum landsins,“ segir Ólafur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir