Sjötta Barokkhátíðin á Hólum að hefjast

Barokkhátíðin á Hólum í Hjaltadal verður haldin í sjötta sinn dagana 26.-29. júní. Aðalgestur hátíðarinnar að þessu sinni er breski fiðluleikarinn og prófessorinn Peter Hanson sem heldur námskeið og stýrir Barokksveit Hólastiftis á lokatónleikum hátíðarinnar sunnudaginn 29. júní kl. 14. Þrír fyrirlestrar verða haldnir á hátíðinni, þrennir hádegistónleikar, kammersveitin Reykjavík barokk heldur tónleika, Jón Þorsteinsson heldur söngnámskeið og Ingibjörg Björnsdóttir kennir barokkdans.

Fimmtudagur 26. júní

Hátíðin hefst með hádegistónleikum í Hóladómkirkju kl. 12.30 þar sem leikið verður á virginalinn sem Barokksmiðjan eignaðist í fyrra  og ýmis einleikshljóðfæri. Þar eru á ferð félagar í kammersveitinni Reykjavík barokk en sú sveit heldur síðan tónleika klukkan 20 sama kvöld í Hóladómkirkju. Fluttar verða ýmsar perlur barokktímans og í flytjendahópnum er altsöngkonan Jóhanna Halldórsdóttir. Þennan dag er líka spennandi fyrirlestur á dagskránni. Ingimar Ólafsson Waage listmálari heldur fyrirlestur um list barokktímans en hann hefur nýlega gefið út kennslubók í listasögu ásamt Halldóri Birni Runólfssyni listfræðingi. Þennan dag hefst líka söngnámskeið Jóns Þorsteinssonar sem haldið er fyrir opnum dyrum og dansnámskeið Ingibjargar Björnsdóttur sem er sömuleiðis opið til þátttöku fyrir alla sem vilja. Barokksveit Hólastiftis kemur saman til æfinga, einnig lítil danshljómsveit og allt iðar af lífi á Hólum.

Föstudagur 27. júní

Hádegistónleikar föstudagsins bera yfirskriftina Bach og Händel á bassann. Þar leika þeir Þórir Jóhannsson kontrabassaleikari og Eyþór Ingi Jónsson organisti. Nokkuð óvenjulegt er að barokkverk séu flutt með þessum hætti og verður gaman að heyra. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 í Hóladómkirkju. Klukkan 15.30 flytur Jóhanna Halldórsdóttir, söngkona og söngkennari, verklegan fyrirlestur um líkamann sem hljóðfæri. Hún fer yfir mikilvægi þess að líkamanum sé beitt eðlilega í söng og gerir verklegar æfingar með þátttakendum. Um kvöldið verða tónleikar þar sem nemendur Jóns Þorsteinssonar koma fram en líka barokk-quiz þar sem glímt verður við ýmsar spurningar um barokkið, allt í léttum dúr.

Laugardagur 28. júní

Þrír ungir söngvarar sem koma til hátíðarinnar frá Hollandi halda söngtónleika í Hóladómkirkju kl. 12.30 laugardag. Þeir eru Christof Laceulle bassi, Nathan Tax, bassi og kontratenór, og Tobias  Segura Peralta kontratenór. Síðdegis kl. 15.30 er svo á dagskrá fyrirlestur Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings þar sem hún fer yfir það hvað Hólarannsóknin segir okkur um barokktímann á Hólum, hin mikla fornleifarannsókn sem gerð hefur verið á Hólum frá aldamótum.  Um kvöldið verður hátíðarkvöldverður í Hólaskóla, dansaður barokkdans við undirleik lítillar danshljómsveitar og almenn gleði.

Sunnudagur 29. júní

Barokkmessa verður í Hóladómkirkju kl. 11. Jón Aðalsteinn Baldvinsson biskup prédikar og Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup þjónar fyrir altari. Barokksveit Hólastiftis leikur og fleira tónlistarfólk tekur þátt í tónlistarflutningi. Klukkan 14 lýkur Barokkhátíðinni á Hólum 2014 með hátíðartónleikum Barokksveitar Hólastiftis í Hóladómkirkju. Þar uppsker sveitin því sem sáð hefur verið undanfarna daga og Peter Hanson leiðir sveitina. Flutt verður barokktónlist og jafnvel laumast aðeins í örlítið yngri tónlist, t.d. Mozart.

Um heiðursgestinn

Peter Hanson starfar bæði sem fiðluleikari og sem prófessor við tónlistarháskólann í Cardiff, Royal Welsh College of Music and Drama. Hann leikur bæði á klassíska fiðlu og barokkfiðlu og hefur víðtæka reynslu af flutningi barokktónlistar. Hann lék á sínum tíma með frægum hljómsveitum eins og Academy of St. Martin‘s-in-the-Fields, The London Sinfonietta og fleirum en stofnaði svo eigin kavartett, Hanson String Quartet sem lék víða á tónleikum, hljóðritaði margar plötur og lék reglulega í breska ríkisútvarpinu BBC. Árið 1990  bauð Trevor Pinnock honum að vera leiðari í hinni þekktu sveit, English Concert Orchestra, og með henni ferðaðist Peter um allan heim og flutti barokk.

Síðar stofnaði Peter Hanson Eroica-kvartettinn sem flytur tónlist með upprunahljóðfærum. Peter er líka leiðari í  sveit Sir Johns Eliots Gardiners, Orchestre Révolutionnaire et Romantique sem hefur aðsetur í París. Sú hljómsveit lék til dæmis tónlist og kom fram sem leikarar í mynd í BBC-kvikmyndinni Eroica frá árinu 2003 þar sem sviðsettur er frumflutningur á hinu fræga verki Beethovens, Eroica.

Auk þessa hefur Peter Hanson verið leiðari í sveitinni London Classical Players hjá Roger Norrington, gestaleiðari hjá Hallé-hljómsveitinni, Scottish Chamber Orchestra, Philharmonic Orchestra undir stjórn Rostropovich, Mahler Chamber Orchestra, Les Musiciens du Louvre hjá Marc Minkowski, L‘Orchestre des Champs-Elysées og hinni  frönsku sveit, La Chambre Philharmonique, sem er upprunahljómsveit og sérhæfir sig í klassísku og rómantísku efni. Í apríl 2005 fór hann í Evrópureisu sem gestaleiðari Lundúnasinfóníunnar, London Symphony Orchestra.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir