Skagafjarðarveitur bora eftir köldu vatni - „Nóg í bili en þetta er bráðabirgðaaðgerð“

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða við borun holu VM-21 við Veðramót. Mynd: SKV.
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða við borun holu VM-21 við Veðramót. Mynd: SKV.

Skagafjarðarveitur hafa látið bora fjórar holur til að freista þess að auka kaldavatnið fyrir Sauðárkrók en ekki er langt síðan fréttir bárust af vatnsskorti á Króknum. Tvær holanna sem boraðar voru eru í Skarðsdal og tvær á Veðramóti í Gönguskörðum. Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðstjóra Veitu- og framkvæmdasviðs hafa allar holurnar gefið vatn en mismikið og ágætlega lítur út með vatnsmagnið.

„Það er ekki komið í ljós hversu mikið þetta bætir við það sem fyrir er í vatnsöflun þar sem þetta er á svæðinu sem þegar er verið að nýta. Komin er bráðabirgðadæla í eina holuna í Veðramóti, sem gefur mesta vatnsmagnið, og virðist sem dælingin hafi ekki áhrif á heildarmagnið á svæðinu.“

Indriði segir að ætlunin sé að fá stærri dælur og taka prófanir til að sjá hversu mikil áhrif dæling hefur á svæðið svo hægt verði að átta sig á hvað þurfi við að bæta. „Hugsanlega þarf að bæta einhverju við vatnsöflunina en er ekki alveg ljóst enn hversu mikið, það kemur í ljós á næstu vikum.

Indriði segir verkið hafa gengið vel og jafnvel betur en búist var við en það á eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta hefur. „Þetta er nóg í bili en þetta er bráðabirgðaaðgerð svo við þurfum að huga að því að fara á önnur svæði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir