Skagfirðingur spilað flesta leiki í efstu deild kvenna

Skagfirski körfuknattleiksmaðurinn Birna Valgarðsdóttir lék sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna fyrir meira en 22 árum og á dögunum varð hún sá leikmaður sem hefur spilað flesta leiki í efstu deild kvenna á Íslandi. Á Vísi.is segir að hún sé búin að eiga stigametið í nokkurn tíma en nú sé hún efst á báðum listum.

„Ég er rosalega glöð að hafa náð þessu,“ segir Birna í umfjöllun Vísis og bætir við að hún ætli að fara með metin þannig að enginn nái þeim. „Ég veit það nú ekki alveg því það geta komið upp einhverjir demantar sem nenna að þrauka jafnlengi og ég,“ segir Birna.

Birna leikur með Keflavík en staða hennar hjá liðinu er þó afar sérstök því hún er 18 og hálfu ári ári eldri en næstelsti íslenski leikmaður Keflavíkurliðsins. „Ég þarf að halda í við þessar ungu stelpur og þær halda manni ungum þessar elskur,“ segir Birna hlæjandi. Hún fær alveg að vita af því á æfingum að hún er 18 árum eldri en sú næstelsta.

„Ég er alveg kölluð mamma en rosalega oft bara gamla. Þær skjóta því aðeins á mig,“ segir Birna en það eru átján ár á milli hennar og Lovísu Falsdóttur sem er elst af hinum íslensku leikmönnum liðsins. Lovísa og Birna eru þær einu sem hafa haldið upp á tvítugsafmælið. „Ég smellpassa inn í þennan hóp eins og flís við rass,“ svarar Birna aðspurð um hvort hún finni sig með svo ungum stelpum.

„Númer eitt, tvö og þrjú er þetta alveg svakalega gaman. Það er erfitt hætta. Félagsskapurinn er líka svakalega stór partur af þessu. Ég er búin að gera þetta í öll þessi ár og það á ekki alveg við mig að verða eitthvert sófadýr. Það fer kannski að líða að því en ekki alveg ennþá,“ segir Birna.

Snýst um félagsskapinn og að hafa gaman af þessu

Birna byrjaði tímabilið rólega, kom inn af bekknum og fékk oft ekki mikið að spila. Hún hefur hins vegar fengið fleiri mínútur eftir því sem liðið hefur á tímabilið. „Ég ætlaði ekki að vera eitt tímabil á bekknum. Ég fór bara að lyfta af krafti, tók á því af krafti og reyndi að koma mér í gírinn. Það er að skila sér,“ segir Birna sem er aftur komin í byrjunarlið Keflavíkurliðsins.

Birna varð Íslands- og bikarmeistari með Keflavíkurliðinu vorið 2013 og flestir bjuggust við að það væri tímapunktur fyrir hana að hætta. „Það hefði verið voða gaman að enda sem tvöfaldur meistari en þegar þú ert orðinn eldri þá snýst þetta svo mikið um félagsskapinn og að hafa gaman af þessu,“ segir Birna og löngun í næsta titil rekur hana líka áfram. „Ég get kannski gert aðeins betur og náð í eitthvað aðeins meira. Ég hugsa því meira um að taka einn í viðbót en eitthvað annað.“

Sem fyrr segir er Birna Skagfirðingur, dóttir Valla Valla Björns sem á Sauðárkróki og Freyju Oddsteins. Hún spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild með Tindastóli haustið 1992. „Það eru allir að segja við mig: Ertu ekki að fara hætta? Þú ert orðinn svo gömul. Ég svara á móti að þetta snúist ekki um það,“ segir Birna. Loks er hún spurð hvort hún sé ekki löngu orðin Keflvíkingur eftir átján ára tímabil þar? „Ég segi alltaf að ég sé Skagfirðingur í húð og hár en ég er með Keflavíkurhjarta.“

Flestir leikir í úrvalsdeild kvenna:

  1. Birna Valgarðsdóttir - 364
  2. Hafdís Helgadóttir - 362
  3. Þórunn Bjarnadóttir - 351
  4. Sigrún Skarphéðinsdóttir - 332
  5. Hildur Sigurðardóttir - 330
  6. Anna María Sveinsdóttir - 324
  7. Guðbjörg Norðfjörð - 284
  8. Alda Leif Jónsdóttir - 275
  9. Linda Stefánsdóttir - 259
  10. Kristrún Sigurjónsdóttir - 247
  11. Kristín Blöndal - 243
  12. Pálína Gunnlaugsdóttir - 242

Um Birnu Valgarðsdóttur

  • 38 ára gömul
  • 364 leikir og 5.207 stig í úrvalsdeild
  • Spilaði sinn fyrsta úrvalsdeildarleik 9. október 1992 en þá var enn 21 mánuður þar til að elsti íslenski leikmaður Keflavíkurliðsins í dag fæddist.
  • Er að spila sitt sautjánda tímabil í röð og átjánda tímabil alls með Keflavík. Hefur spilað með fjórum félögum í efstu deild - Tindastól (28 leikir, 419 stig), Breiðabliki (18 leikir, 169 stig), Grindavík (15 leikir, 203 stig) og svo Keflavík (303 leikir, 4.416 stig). Hefur verið í sigurliði í 267 af 364 leikjum sínum í efstu deild.

Umfjöllun Vísis.is í heild sinni má sjá hér.

Fleiri fréttir