Skallagrímur lítil fyrirstaða á leið Stólanna í undanúrslit
Tindastóll tók á móti liði Skallagríms í 8 liða úrslitum í Powerade bikarkeppni KKÍ í gærkvöldi. Fæstir áttu von á að 1. deildar lið Borgnesinga næði að flækjast fyrir Stólunum og kom það líka á daginn; það var allan tímann ljóst að heimamenn voru miklu sterkari þó svo að þeir hafi varla farið úr öðrum gírnum. Lokatölur 72-48 fyrir Tindastól.
Halldór Gunnar Jónsson setti niður 3ja stiga körfu í upphafi leiks en hann hafði verið í miklum ham og gert 35 stig í leik með Skallagrími daginn áður í 1. deildinni. Ekki gerði hann mikið fleiri rósir í leiknum í gær því varnarleikur Stólanna var til mikillar fyrirmyndar og gestirnir settu aðeins þrjú 3ja stiga skot niður í 25 tilraunum. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en heimamenn þó yfir 15-13 að honum loknum. Stólarnir hófu annan leikhluta af miklum krafti og gerðu fyrstu 10 stigin og því komnir með örugga forystu sem gestirnir náðu aldrei að koma undir 10 stigin. Borce, þjálfari Tindastóls, rúllaði liðinu vel og allir 12 leikmenn Tindastóls fengu að spreyta sig í leiknum og voru útlendingarnir í liðinu til að mynda notaðir sparlega. Stólarnir sigruðu annan leikhluta 25-10 og höfðu því 17 stiga forystu í hálfleik, 40-23.
Síðari hálfleikur var í raun hálfgert formsatriði. Gestirnir voru þreytulegir, skotnýting þeirra afleit og Stólarnir spiluðu nánast með einari. Sóknarleikur Stólanna var reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir. Þriðja leikhluta sigruðu heimamenn 13-10 og svona alveg á mörkunum að áhorfendur héldust vakandi. Örlítið léttari bragur var á leikmönnum í fjórða leikhluta en þegar upp var staðið endaði leikurinn 72-48 fyrir Stólana og sæti í undanúrslitum gulltryggt en þar eru, auk Stólanna, KR og Haukar og í kvöld eigast við lið Grindvíkinga og Laugdæla.
Stigahæstur í liði Tindastóls var Hayward Fain sem gerði 15 stig á tæpum 17 mínútum, Helgi Rafn hirti 18 fráköst og setti niður 5 stig en tróð aldrei og þá gerði Svabbi 14 stig og tók 11 fráköst. Darrel Flake var bestur í liði gestanna en kappinn gerði 17 stig, tók 11 fráköst og átti þrjár stoðsendingar. Aðrir leikmenn gestanna voru ekki til stórræðanna í gærkvöldi.
Stig Tindastóls: Fain 15, Svavar 14, Kitanovic 14, Rikki 9, Cunningham 9, Helgi Rafn 5, Helgi Freyr 4 og Halldór 2.