Skankar með tilbrigðum

Matgæðingarnir Sirrý og Skúli á Sólbakka. Aðsend mynd
Matgæðingarnir Sirrý og Skúli á Sólbakka. Aðsend mynd

Matgæðingar áttunda tölublaðs ársins 2018 voru Sigríður Hjaltadóttir og Skúli Þór Sigurbjartsson. „Við búum á Sólbakka í Víðidal. Þar rekum við kúabú auk þess að eiga nokkrar kindur og hross til að ná að nýta landið á sem fjölbreytastan hátt. Við höfum ræktað skjólbelti á jörðinni eins og tími hefur unnist til og nýtum þannig landsins gagn og nauðsynjar,“ segja þau hjón. „Við áttum í erfiðleikum með að velja uppskriftir því við erum einlægir aðdáendur íslenska dádýrsins, sem er auðvitað kindakjötið okkar. Mér skilst að það megi ekki nefna lambakjöt því það er svo vont erlendis, það sé betra að nota orðið kind. En okkur langaði líka til að skerpa á kunnáttu landans við að elda nautakjöt eða koma með uppskrift úr íslensku folaldi því það er ekki hægt að ofelda það. Fyrir valinu varð ungt kindakjöt úr íslenskum framparti (lambakjöt), grunnuppskriftin kemur frá Nigellu sem er okkur flestum kunn. Hún eldaði þennan rétt með baunum en við eldum hann með tilbrigðum.“

FORRÉTTUR
Bleikja á brauði

„Forréttir eru uppáhald húsmóðurinnar en eftirréttir eru uppáhald húsbóndans. Ákveðið var að halda sig við mat sem framleiddur er á bænum en það er hægt að veiða eina og eina bleikju í ánni, sérstaklega síðla sumars.“

300 g reykt bleikja, skorin í örþunnar sneiðar
1 krukka fetaostur, létthrærður með örlitlu af kryddolíunni
límóna eða sítróna
2 snittubrauð, brushettur, ristað eða hitað
túnfífilblöð af ungum túnfíflum nýtíndum, klettasalat eða graslaukur

Aðferð:
Osturinn er hræður létt með örlítilli olíu og skvettu af lime. Settur á brushetturnar og reykta bleikjan ofan á. Skreytt með túnfíflum, klettasalati eða graslauk.

AÐALRÉTTUR 

Skankar með tilbrigðum

6 skankar af ungri kind, frá svona 3ja mánaða til tveggja vetra, má vera bæði fram og aftur skanki
250 ml mysa (hvítvín)
2-4 msk. berjahlaup (rifsber, krækiber, bláber eða það sem til er í ísskápnum)
4 msk. Worshestersósa
100 ml hvítlauksolía (marinn hvítlaukur, steinselja, ólífuolía) þar af 20 ml til að nota við að elda grænmetið
2 laukar, skornir í fernt
nokkrar greinar blóðberg (eða 1 grein rósmarín eða 1 tsk þurrkuð rósmarín)

Aðferð:
Marinering:
Gott er að skipta hráefninu að framan (muna eftir lauknum) í tvær skálar með loki og setja þrjá skanka í hvora. Geymið í ísskáp í nokkrar klst. eða allt upp í tvo sólarhringa. Gott er að snúa skálunum af og til.
Eldun:
Þegar komið er að eldun skal hita ofninn í 200 °C. Innihaldi skálanna er hellt í einn ofnpott (eldfast mót eða ofnskúffu), skellið inn í ofninn og lækkið hitann í 170°C. Steikið í um einn og hálfan tíma.

Meðlætið eldað og bætt við í pottinn:

20 ml hvítlauksolía
íslenskt rótargrænmeti, kartöflur, rófur, gulrætur, svo má bæta við blaðlauk, spergilkáli eða hverju sem þið eigið í ísskápnum. Dæmi um þetta getur verið  1 gulrófa, 2 kartöflur, 3 gulrætur og græni hluti blaðlauksins, bæta má við spergilkáli eða öðru grænmeti sem gott er að elda.
1 msk Dijon sinnep

Aðferð:
Skerið grænmetið smátt og svitið það í hvítlauksolíunni, setjið svo vatnið og sinnepið út í og kryddið með salti og pipar og látið malla smá. Salt og pipar eftir smekk.
Hellið innihaldinu í fatið með skönkunum eftir um klukkustundar eldun og eldið þar til grænmetið er orðið mjúkt. Berið fram með meira berjahlaupi og tómatsalati eða einhverju uppáhaldssalati.

Tómatsalat:
Skerið tómata í sneiðar og raðið á disk og saltið.

EFTIRRÉTTUR
Jógúrtís

„Hjá okkar fjölskyldu er heimagerður ís besti eftirrétturinn og allir fá sitt eftirlæti í hann. Við gerum stundum jógúrt úr mjólkinni okkar sem við framleiðum og gerum ís úr henni stundum. Við ætlum að lauma þessu að ykkur. Jógúrt úr ógerilsneyddri, og ófitusprengdri mjólk sem er enn með allan rjómann í sér er lík grískri jógúrt.“

2 dl grísk jógúrt, þeytt létt
2 dl rjómi, þeyttur
2 egg, þeytt, bæði rauðan og hvítan
2 msk hrásykur

Aðferð:
Það getur verið gott að hita rjómann og þeyta hann með eggjarauðunum en sleppa þá eggjahvítunum. Hita svo aftur alla blönduna og bæta þá jógúrtinu við. Einnig má blanda saman jógúrt og rjóma.
Bragðefni eftir smekk.  Gott er að setja vanillu, vanillusykur eða dropa en minna ef sett eru fleiri bragðefni eins og maukuð bláber, jarðaber, súkkulaði o.fl.

Sett í ílát og fryst í nokkrar klukkustundir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir