Skeggjastaðir í Miðfirði (Skeggvaldsstaðir) - Torskilin bæjarnöfn

Skeggjastaðir eru á því svæði sem örin bendir á. Landamerki Skeggjastaða eru þannig skráð í landamerkjabók Húnavatnssýslu: Að norðan, milli Skeggjastaða og Litlu-Þverár, ræður svonefndur Hakalækur frá Vesturá og til Hakatjarnar; þaðan sjónhending beint í foss í Þverá; að austan ræður Þverá merkjum fram í Sandhól, sem er á vestari bakka árinnar austur undan syðri enda Lönguborgar; hóll þessi er suður- og austurhornmerki Skeggjastaðalands. Þaðan ræður sjónhending vestur í Hornavörðu á Landsendaborg; þá ræður mörkum milli Skeggjastaða og Dalgeirsstaða bein lína úr Hornavörðu í vörðu á suðurenda Treyjuborgar; þaðan beina línu í miðjan norðasta Hesthól; þaðan beina línu í vörðu á Slægjuhól; þaðan í tvo steina, sem kallaðir eru Bræður, niður við Vesturá; steinar þessir eru merktir L.M., sem þýðir landamerki. Að vestan ræður merkjum Vesturá, þar til Hakalækur fellur í hana.
Skeggjastaðir eru á því svæði sem örin bendir á. Landamerki Skeggjastaða eru þannig skráð í landamerkjabók Húnavatnssýslu: Að norðan, milli Skeggjastaða og Litlu-Þverár, ræður svonefndur Hakalækur frá Vesturá og til Hakatjarnar; þaðan sjónhending beint í foss í Þverá; að austan ræður Þverá merkjum fram í Sandhól, sem er á vestari bakka árinnar austur undan syðri enda Lönguborgar; hóll þessi er suður- og austurhornmerki Skeggjastaðalands. Þaðan ræður sjónhending vestur í Hornavörðu á Landsendaborg; þá ræður mörkum milli Skeggjastaða og Dalgeirsstaða bein lína úr Hornavörðu í vörðu á suðurenda Treyjuborgar; þaðan beina línu í miðjan norðasta Hesthól; þaðan beina línu í vörðu á Slægjuhól; þaðan í tvo steina, sem kallaðir eru Bræður, niður við Vesturá; steinar þessir eru merktir L.M., sem þýðir landamerki. Að vestan ræður merkjum Vesturá, þar til Hakalækur fellur í hana.

Hæpið er að bærinn hafi upphaflega heitið Skeggkalls- (Safn IV. 443) enda finst sá ritháttur hvergi. Elzta vitnisburðarbrjet um nafnið, er frá árinu 1394 og síðan endurritað árið eftir og á báðum stöðum er nafnið ritað: Skeggalds- (DI. lll. 540 og 595). Jafnvel til 1700 hefir nafnið haldist lítið breytt, því Árni Magnússon ritar þá Skeggvalds-  (eða Skegghalds-) (Jarðabók 1703). Eftir það gleymist nafnið, og jarðabækurnar hafa Skeggja- (og Ný Jb. bls. 98 hefir Skeggalds- (í svigum).

Jeg hygg að rjetta nafnið hafi verið Skeggvaldastaðir, og á það bendir rithátturinn Skeggalds- á 14. öld. Einnig styðst það við Á. M., sem einmitt hefir Skeggvalds-. Allir sjá að nafnið hefur breyzt úr Skeggalds- í Skeggja eða jafnvel Skegg- sem nú er kallað, og hví skyldi það þá ekki hafa getað breyzt úr Skeggvalda- í Skeggalds-?

Það eru þó smámunir móti nafnabjögunum fyrrum t.d. Harðlaugsstaðir (í Holum) urðu Jarnligsstaðir-, Kursveins- Kussungs-, Steinnýjar- Steinars- o.s.frv. Í þessu sambandi er það merkilegt hve Valda- nafnið hefir tíðkast í bæjanöfnum á nálægu svæði, en hvergi annarsstaðar: Valdarás- ef.  af valdur- og Valdalækur- báðir í næstu sveit við Skeggvaldastaði. Sá, sem bærinn var kendur við í fyrstu, virðist því hafa verið kallaður Skeggvaldi (sb. Skegg-Þórður, Ármóður skegg, Skegg-Broddi o.s.frv. Og loks er það áherzluverðast, að einmitt í Húnavatnsþingi, en hvergi annarsstaðar, þekkist nafnið Skegg-Ávaldi. Hans er getið aðeins í Hallfreðarsögu og Vatnsdælu, sem báðar gerast í nálægri sveit – Vatnsdal (og víðar). Vatnsdæla (bls. 110) segir að Ávaldi Ingjaldsson hafi verið með Klakka-Ormi í Forsæludal. Hallfreðarsaga (bls. 5) segir frá, að Ávaldi hafi keypt „land at Hnjúki í Vatnsdal“. Hvorttveggja getur vel staðist, en verið á mismunandi tíma. Fyrst nú Ávaldi var auknefndur Skegg-Ávaldi í riti, má geta nærri að venjulega hefir hann verið kallaður Skeggvaldi.

Líkurnar eru því miklar fyrir því, að bærinn hafi heitið Skeggvaldastaðir að fornu, og auðveldlega getur hafa verið til annar Skeggvaldi (ættingi Skegg-Ávalda ?) sem bærinn tók nafn af, eða Skegg-Ávaldi sjálfur hafi fluzt þangað í elli sinni, sem er alls ekki ósennilegt. (Sbr. um Dæli í Víðidal hjer að framan). En hvernig sem því hefir verið varið, mun upprunanafnið vera Skeggvaldastaðir, sem vitanlega gat orðið Skeggvalds- í framburði og loks Skeggalds. (Það er sjaldnast, að fornsögur vorar geti um búferlisflutning forfeðra vorra, nema það standi að einhverju leyti í sambandi við atburðina, sem sagt er frá. En auðvitað hefir það samt oft komið fyrir, að bændur fluttu sig búferlum frá einum stað til annars og það jafnvel sjálfir landnámsmennirnir. Nokkur dæmi þekkjast þó um það og bendi jeg aðeins á eitt: „Geiri hjet maðr norrænn er fyrstr bjó fyrir sunnan Mývatn á Geirastöðum [Landn. bls. 167]. Seinna fluttist hann vestur í Húnavatnsþing og „sat um vetr á Geirastöðum við Húnavatn“. Og seinast fluttist hann til Króksfjarðar og reisti bú í Geiradal og bjó þar síðan“).

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 34. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir